Sjáum unga fólkið meira heima

Enn er unnið í og við Héðinsfjarðargöng þótt umferð hafi …
Enn er unnið í og við Héðinsfjarðargöng þótt umferð hafi verið hleypt í gegn í dag af sérstöku tilefni. mbl.is/Sigurður Ægisson

„Við förum að sjá unga fólkið meira heimavið og menntunarstigið eykst. Samvirkni milli menntastofnunar og samfélagsins skiptir máli,“ segir Lára Stefánsdóttir, skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga sem settur var í fyrsta skipti í gær við athöfn í félagsheimilinu Tjarnarborg í Ólafsfirði.

Unnið hefur verið að undirbúningi skólans undanfarna mánuði og ár. Hann er til húsa í húsi sem áður hýsti gagnfræðaskólann á Ólafsfirði. Unnið hefur verið að lagfæringum því. „Húsnæðið vex síðan eftir því sem skólinn vex,“ segir Lára.

Kennsla hefst samkvæmt stundarskrá á mánudag.

73 nemendur eru við skólann og er það mun fleira en reiknað var með. Aðeins um tuttugu nemendur koma beint úr grunnskóla. Aðrir hafa byrjað í framhaldsskóla annars staðar og koma heim til að halda áfram námi eða eru að láta rætast gamlan draum um að fara í framhaldsskóla.

Göngin eru forsendan

Flestir eru nemendurnir frá Ólafsfirði og Siglufirði. Héðinsfjarðargöng sem eru á lokastigi eru forsendan fyrir stofnun skólans og sameiningu sveitarfélaganna sem nú mynda Fjallabyggð. 

Þótt enn sé rúmur mánuður í að göngin opni voru starfsmenn verktakanna svo vinsamlegir að opna göngin sérstaklega vegna skólasetningarinnar svo fleiri Siglfirðingar kæmust. Starfsmenn Háfells fylgdu Siglfirðingum í gegn upp úr hádeginu og komu þeim heilu og höldnu til baka síðdegis.

Meðal gjafa sem Menntaskólinn fékk við athöfnina er stór steinn sem Háfellsmenn tóku úr Héðinsfjarðargöngum. Lára segir að hann sé táknmynd fyrir stækkun þjónustusvæðisins sem er forsenda fyrir starfrækslu skólans.

Stúdentar í fisktækni

Í skólanum verður hefðbundið nám í félags- og náttúruvísindum en jafnframt reyndar nýjar brautir.  Þar verður listabraut með fagurlistum, tónlist og listljósmyndun en það síðastnefnda er nýjung í framhaldsskóla hér á landi. Þá verður braut með áherslu á ferðir og útivist. Loks fisktækni sem skólinn þróar í samvinnu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Munu nemendur geta útskrifast sem stúdentar í fisktækni.

„Við erum á sterku sjávarútvegssvæði og þessi atvinnugrein skiptir okkur miklu máli. Svo erum við menntaskóli og búum nemendur okkar undir háskólanám og líf og starf í lýðræðissamfélagi, eins og framhaldsskólalögin kveða á um,“ segir Lára Stefánsdóttir skólameistari.

Á þriðja tug bíla fór í gegn um Héðinsfjarðargöng í …
Á þriðja tug bíla fór í gegn um Héðinsfjarðargöng í gær, undir leiðsögn starfsmanna Háfells. mbl.is/Sigurður Ægisson
Valgeir Bergmann verkefnisstjóri Háfells afhenti Láru Stefánsdóttur stein úr Héðinsfjarðargöngum …
Valgeir Bergmann verkefnisstjóri Háfells afhenti Láru Stefánsdóttur stein úr Héðinsfjarðargöngum sem prýðir nú lóð Menntaskólans á Tröllaskaga. mbl.is/Gísli Kristinsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert