Í nótt var skotið á jarðýtu sem var lagt við þjóðveg í Vestur- Húnavatnssýslu, vegna vegavinnu sunnan við Víðihlíð. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Blönduósi var skotið frá veginum og inn um hliðarrúðu, kúlan farið í gegn og út um hina hliðarrúðuna.
Segir lögreglan þetta hafa gerst einhvern tímann frá kl. 09:30 í gærkvöldi til kl. 7 í morgun. Mikið er af skyttum á ferðinni í sýslunni núna vegna gæsaveiða en tímabilið hófst 20. ágúst, segir í tilkynningu lögreglunnar.
Ef einhver hefur upplýsingar um málið þá má hafa samband við lögregluna á Blönduósi í síma 455 2666.