Stjórn Lögreglufélags Reykjavíkur tekur undir orð Snorra Magnússonar, formanns Landssambands lögreglumanna, um að yfirstjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu reyni með „tölfræðileikfimi“ að fegra ástand mála í ársskýrslu og breyti skráningum lögreglumanna eftir á.
Greint er frá þessu á vef Lögreglufélags Reykjavíkur og vitnað þar í frétt mbl.is frá í gærkvöldi, þar sem talað var við Snorra Magnússon og Stefán Eiríksson lögreglustjóra.
„Það er fróðlegt fyrir lögreglumenn að lesa ummæli lögreglustjóra og rétt fyrir lögreglumenn að hafa þau í huga næst þegar skráningu á málum þeirra er breytt. Það væri kannski ekki úr vegi að kvarta beint til lögreglustjóra svo hann viti hvað undirmenn hans eru að aðhafst," segir á vef lögreglufélagsins.