Enginn millivegur til í þagnarskyldunni

Sr. Geir Waage, prestur í Reykholti.
Sr. Geir Waage, prestur í Reykholti. mbl.is/Jim Smart

Þagnarskylda presta við sóknarbörn sín er algjör og þar er enginn millivegur til, að sögn sr. Geirs Waage sóknarprests í Reykholti. Geir segir að prestar geti ekki beygt sig undir barnaverndarlög þar sem segir að tilkynningaskylda sé æðri siðareglum.

„Þagnarskyldan byggir á því að presturinn er áheyrandi að því sem sagt er við hann í skriftum í Guðs stað, þannig að sá sem kemur með vandræði sín eða samviskukvalir til prestsins verður að geta treyst því að það fari ekki lengra. Annað hvort er þagnarskyldan algjör eða hún er engin, það er enginn millivegur þarna," segir sr. Geir Waage við Morgunblaðið.

Geir var meðal þeirra sem mæltu gegn því að innleitt yrði ákvæði í siðareglur Prestafélagsins þar sem tekið yrði sérstaklega fram að þagnarskylda presta leysti þá ekki undan tilkynningaskyldu til Barnaverndar. Meðal þess sem Geir og fleiri bentu á í þeim umræðum, og hefur staðið í sumum, er að prestum beri fremur að hlýða Guði en mönnum og skyldur þeirra sem presta gangi lengra en mannanna boð.

Ekki um yfirhylmingu að ræða

Geir segir að þessi ummæli séu með vísan í þá grundvallarhugmynd að prestur hlýði á skriftir í Krists stað. „Presturinn má aldrei gera sig að dómara yfir samvisku annars manns. Hann getur ekki farið að sortera hvers konar leyndarmál eigi að þegja um og hvers konar leyndarmál eigi ekki að þegja um. Hann er hlustandi og á síðan að leiðbeina viðkomandi til þess að taka afleiðingum gjörða sinna."

Því sé það aldrei svo að prestur sitji þegjandi og hljóðalaust og hylmi yfir með brotamönnum, hann reyni að tala um fyrir þeim en geti hinsvegar ekki hlaupið með upplýsingarnar á torg. „Hvert á brotamaður að leita ef hann getur ekki lengur einu sinni leitað til prests og treyst því að hann fari ekki með allt til lögreglunnar? Þegar upp er staðið snýst þetta um grundvallar nauðsyn sálusorgunar, að manneskja eigi einhvers staðar eyra, hversu skelfilegt það er sem angrar viðkomandi."

Að sögn Geirs er ekki um það að ræða að sú ólíka afstaða sem prestar virðast hafa til þagnarskyldunnar byggi á ólíkum kenningum. „Það hefur aldrei verið nema ein kenning innan kirkjunnar og hún er sú að presturinn er sálusorgari og hann hlýðir skriftum manna og leiðbeinir þeim, hann getur ekki vikið sér undan því. Þess vegna segi ég fullum fetum að þeir menn sem ekki skilja þetta og ekki treysta sér til þess að þegja yfir svona vitneskju, sem oft á tíðum er alveg skelfileg, þeir eiga ekki að vera í prestsskap. Þarna skilur á milli þeirra sem eru prestar og taka skyldu sína alvarlega og einhvers konar félagsliða í hempu."

Geir skýrir nánar frá þessari afstöðu sinni í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka