Annasöm nótt hjá lögreglunni

Frá tónleikunum á Arnarhóli á Menningarnótt.
Frá tónleikunum á Arnarhóli á Menningarnótt. mbl.is/Eggert

Nóttin var mjög annasöm hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og stöðug útköll fram undir morgun vegna ölvunar og ryskinga sem þeim fylgir. Fangageymslur voru fullar. Ró komast á með morgninum.

Á Menningarnótt bar nokkuð á unglingadrykkju, um kvöldið, en á þriðja tug ungmenna voru vistuð í athvarfi á vegum ÍTR vegna ölvunar. Þau voru sótt af forráðamönnum. Þá tók lögregla áfengi af á annan tug einstaklinga sem ekki höfðu aldur til áfengisdrykkju. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með talsverðan viðbúnað frá klukkan sjö að morgni Menningarnætur og Reykjavíkurmaraþons. Sá viðbúnaður stóð í sólarhring.

Nokkur breyting var gerð á skipulagi umferðarmála að þessu sinni með lokun Þingholtanna og Kvosarinnar, en þær lokanir voru mun umfangsmeiri en áður. Það er mat lögreglu að það ófremdarástand sem áður skapaðist í miðborginni  vegna stöðu bifreiða hafi að stórum hluta verið leyst með þessari breytingu.

Verkefni tengd umferðareftirliti voru þó fyrirferðarmest hjá lögreglu yfir daginn. Engin alvarleg umferðaróhöpp áttu sér stað þrátt fyrir mikla umferð.

Það er mat lögreglu að það skipulag sem nú er unnið eftir hafi tekist vonum framar. Unglingadrykkja, þó hún hafi ekki verið meira áberandi nú en síðustu ár, er þó áhyggjuefni. Þar þurfa allir að leggjast á eitt svo árangri megi ná, ekki síst foreldrar, segir í tilkynningu lögreglunnar.

Nokkuð á annan tug líkamsárása voru tilkynnt til lögreglu, engin þó alvarleg. 

Fangageymslur lögreglunnar fylltust þegar líða tók á morguninn.

Fyrr um kvöldið var sérstakt eftirlit með umferð skemmtibáta á sundunum. Einn skipstjóri var handtekinn grunaður um að stjórna bát sínum undir áhrifum áfengis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert