Biskup: Tók ekki þátt í þöggun

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands. mbl.is/Kristinn

Karl Sigurbjörnsson biskup vísar því algjörlega á bug að hann hafi gengið erinda þeirra sem vildu þagga niður ásakanir Sigrúnar Pálínar Ingvarsdóttur á hendur Ólafi Skúlasyni biskupi fyrir 14 árum síðan. Í yfirlýsingu frá biskupi segist hann umbeðinn hafa komið að tilraunum til sátta milli Ólafs og Sigrúnar en þeim tilraunum hafi verið sjálfhætt þegar Ólafur neitaði að biðja hana afsökunar. 

Yfirlýsing biskups er eftirfarandi:

„Aðkoma mín að máli Sigrúnar Pálínu Ingvarsdóttur á hendur Ólafi Skúlasyni, biskupi, fyrir 14 árum þegar ég var sóknaprestur í Hallgrímskirkju, hefur nú verið í umræðu og því haldið fram að ég hafi átt þátt í því að beita óeðlilegum þrýstingi til að fá hana til að falla frá ásökunum sínum. Samskipti okkar Sigrúnar Pálínu í ofangreindu máli voru með eftirgreindum hætti:

Laugardagskvöldið 2. mars 1996 hringdi séra Hjálmar Jónsson, alþingismaður, í mig og sagðist vera staddur á fundi með Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur og manni hennar. Tjáði hann mér að þau vildu fá að hitta mig til að ræða leið til að ná sáttum í svonefndu biskupsmáli.

Þar sem lagt var hart að mér ákvað ég að hitta hjónin ásamt sr. Hjálmari í Hallgrímskirkju þá um kvöldið. Við ræddum þar málið og fannst mér koma skýrt fram löngun Sigrúnar Pálínu að ná sáttum. Sömdum við saman drög að yfirlýsingu sem fól í sér að Ólafur biskup bæðist fyrirgefningar á framkomu sinni og að yrði þá málið látið niður falla.

Síðdegis næsta dag fórum við séra Hjálmar á fund Ólafs biskups og sýndum honum yfirlýsinguna og spurðum hann hvort hann gæti sæst á þessa skilmála. Hann brást ekki vel við en sagðist vilja reyna sættir með þeim skilyrðum að Sigrún Pálína drægi ásökun sína á hendur honum til baka. Fyrirgefningarbeiðni af hans hálfu kæmi ekki til greina. Við bárum Sigrúnu og manni hennar þau skilaboð þegar sama kvöld. Hún taldi þetta alls ekki koma til mála. Þar með var útséð um sættir, því miður, og aðkomu minni að málinu lokið.

 Ég vísa því algjörlega á bug að hafa gengið erinda þeirra sem vildu þagga niður málið. Hafa ber í huga að Sigrún Pálína kærði biskup til saksóknara sem taldi ekki efni til að birta ákæru í málinu. Einnig má minna á að málið yfirgnæfði alla umræðu í kirkjunni og stofnunum hennar, Kirkjuráði, Prestafélagi Íslands og Prestastefnu. Menn skiptust í flokka og tóku afstöðu með biskupi eða Sigrúnu Pálínu. Almenningsálitið kvað upp sinn dóm og Ólafur biskup lét af embætti.

Ég hef einsett mér að þjóðkirkjan lærði af reynslunni af þessu sársaukafulla máli og tæki af einurð á málum af þessu tagi framvegis og hef unnið af því á minni embættistíð.“

 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka