Erfiðast að hjóla upp Gilið

Haraldur Hreggviðsson lýkur langferð við Hlíðarsmára í Kópavogi.
Haraldur Hreggviðsson lýkur langferð við Hlíðarsmára í Kópavogi. mbl.is

„Ég er í betra formi en ég reiknaði með, átti von á að það reyndi meira á enda er ég kominn á sextugsaldurinn og ríflegur í holdum,“ segir Haraldur B. Hreggviðsson matreiðslumaður sem hjólaði hringinn til að safna peningum til styrktar krabbameinssjúkum börnum.

Haraldur lauk hringferð sinni í gær, á sama stað og hann lagði upp, við skrifstofur Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna við Hlíðarsmára í Kópavogi. Ferðin tók tólf daga og hann var heldur fljótari en búist var við. „Við ætluðum að gista í bílnum ofarlega á Jökuldal eða Möðrudalsöræfum en veður var það hagstætt að við ákváðum að fara alla leið að Mývatni til að koma okkur í gott rúm,“ segir hann.

Þótt ferðin hafi ekki verið eins erfið og Haraldur reiknaði með þurfti hann oft að taka á. Hann segist hafa undirbúið sig vel, hjólað mikið og tekið á í ræktinni. Svo hafi vindarnir verið hagstæðir, meðal annars hafi verið stíf norðanátt síðustu tvo dagana og það hafi hjálpað honum, meðal annars í Hrútafirðinum. „Ég hefði ekki viljað vera að hjóla hinn hringinn,“ segir hann.

En hver var erfiðasti hjallinn? „Mér fannst erfiðast að hjóla upp Gilið á Akureyri. Mig langaði að hjóla alla leið að Eddu-hótelinu og það tók vel í,“ segir hann.

Sérlegur aðstoðarmaður Haraldar í ferðinni var nafni hans og lionsfélagi, Haraldur Helgason. Haraldur Hreggviðsson reiknar ekki með að hafa tapað kílóum á leiðinn, hann hafi verið svo vel haldinn í fæði hjá nafna sínum. „Við erum báðir kokkar og vitum hvað við viljum,“ segir hann.

Söfnun heldur áfram

Lionsklúbbur Njarðvíkur stendur fyrir söfnunarátaki í tengslum við hjólreiðaferðina sem nefnt er „Hjólað til heilla“. Söfnunarféð rennur til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna.

Þeir félagar settu sér það markmið að safna að minnsta kosti einni milljón og Haraldur telur að það náist. Söfnunin stendur til mánaðamóta. 

Þeir sem vilja styrkja málefnið geta hringt í síma 901 5010 og þá dragast 1000 krónur af símreikningnum. Einnig er hægt að leggja beint inn á reikning í Sparisjóðnum í Keflavík, reikningsnúmerið er 1109-05-412828 og kennitalan 440269-6489.

Haraldur Hreggviðsson og Haraldur Helgason hjálpuðust að við að skera …
Haraldur Hreggviðsson og Haraldur Helgason hjálpuðust að við að skera fyrstu sneiðina af tertu sem bökuð var til að fagna heimkomu þeirra. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert