Handtekin fyrir ósiðlegan dans

Ýmsir dansar voru iðkaðir á Menningarnótt og sumt þótti fara …
Ýmsir dansar voru iðkaðir á Menningarnótt og sumt þótti fara yfir strikið. Myndin er úr safni. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Kona um þrítugt var handtekin í miðborginni í gærkvöldi. Lögreglu bárust margar kvartanir vegna konu sem var sögð iðka ósiðlegan dans. Þegar lögreglumenn komu á vettvang reyndist þetta á rökum reist. Konan, sem var ölvuð, var handtekin og færð á lögreglustöð. Ekki er talið að atriði hennar hafi verið hluti af dagskrá Menningarnætur.

Sex ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á Menningarnótt. Fimm voru stöðvaðir í Reykjavík og einn í Mosfellsbæ. Þetta voru fimm karlar á aldrinum 21-50 ára og ein kona, 35 ára. Einn þessara ökumanna hafði þegar verið sviptur ökuleyfi, samkvæmt upplýsingum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Nokkuð var um umferðaróhöpp í borginni í gær en þau voru nær öll minniháttar. Í einu tilviki var ekið á gangandi vegfaranda en meiðsli hans voru ekki talin alvarleg.

Á Menningarnótt vann lögregla eftir breyttu skipulagi í umferðarmálum og gafst það vel. Engu að síður var nokkuð um að ökutækjum væri illa og/eða ólöglega lagt í miðborginni en ástandið í þessum efnum var þó skárra en oft áður, samkvæmt upplýsingum lögreglu.

Undir miðnætti stöðvaði lögreglan för þriggja manna sem voru á siglingu á skemmtibáti en skipstjóri bátsins var ölvaður.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert