„Nú þarf Geir Waage að hætta“

Sr. Bjarni Karlsson.
Sr. Bjarni Karlsson.

„Ógæfu Íslensku Þjóðkirkjunnar verður allt að vopni þessa daga. Nú gengur sr. Geir Waage fram og lýsir sig reiðubúinn í nafni síns prestsembættis að þegja yfir níðingsskap á börnum. Mig setur hljóðan," segir sr. Bjarni Karlsson í Laugarneskirkju á bloggsíðu sinni á Eyjunni og telur ummæli og skrif sr. Geirs varða við brottrekstur úr embætti. Yfirskrift pistilsins er „Nú þarf Geir Waage að hætta“.

Sr. Geir Waage ritaði grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann sagði m.a. að leynd væri forsenda skrifta. Hún væri algjör eða engin. Ekki væri hægt að krefja prest sagna fyrir dómi um það sem hann hefði orðið áskynja við skriftir. Í samtali við Morgunblaðið sagði Geir ennfremur að þagnarskylda presta við sóknarbörn sín væri algjör og enginn millivegur þar á. Sagði Geir að prestar gætu ekki beygt sig undir barnaverndarlög, þar sem segir að tilkynningarskylda sé æðri siðareglum.

Í kjölfarið sendi Karl Sigurbjörnsson biskup frá sér yfirlýsingu þar sem hann áréttaði að tilkynningarskylda presta um refsiverð athæfi væri ofar þagnarskyldu presta.

Varðar við brottrekstur

Sr. Bjarni Karlsson vitnar í pistli sínum í Matteusarguðspjall, 18. kafla, 6. vers um það sem frelsarinn hafði að segja um barnaníð: „En hverjum þeim sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávadjúp með mylnustein hengdan um háls.“

Bjarni segir það háskalegt og varða hreinan brottrekstur úr prestsembætti að halda fram því sem sr. Geir Waage hafi gert. „Það verður að vera hafið yfir allan vafa að vígðir þjónar kirkjunnar setji öryggi barna og annarra sem ekki geta borið hönd yfir höfuð sér í forgrunn. Prestar eru og hafa lengi verið beinir aðlilar að barnaverndarstarfinu í landinu og presti ber að taka það skýrt fram við hvern sem vill trúa honum fyrir unnu ódæði gagnvart börnum að hann virði ekki trúnað um slíkt undir nokkrum kringumstæðum," skrifar Bjarni.

Hann segir ennfremur að hér sé ekki um mál að ræða sem þoli deildar meiningar. Trúverðugleiki kirkjunnar sem varnarþings mennskunnar í veröldinni sé í húfi í máli sem þessu.

„Mig furðar að sr. Geir leyfi sér að halda þessu fram, mótmæli orðum hans alfarið og hvet biskup til þess að skerast í leikinn af fullri einurð. Máttlaus viðbrögð hans og kirkjuráðs undanfarna daga í tengslum við mál Ólafs Skúlasonar eru þó ekki til þess fallin að vekja mikla von í þeim efnum. Það verður að segja það eins og það er. Íslenska Þjóðkirkjan stendur frammi fyrir miklum vanda á þessu sumri og þjóðin bíður þess með réttu hvernig prestar og yfirstjórn kirkjunnar ætla að vinna úr þeim trúnaðarbresti sem við blasir," segir sr. Bjarni í pistli sínum í gær.

Sr. Geir Waage
Sr. Geir Waage mbl.is/Jim Smart
Karl Sigurbjörnsson, biskup.
Karl Sigurbjörnsson, biskup. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert