„Prestar eiga að kunna að þegja“

Sr. Svavar A. Jónsson við eldhússtörfin heima hjá sér.
Sr. Svavar A. Jónsson við eldhússtörfin heima hjá sér. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þögn getur verið gulls ígildi. Vitrir menn kunna ekki bara að orða hugsanir sínar. Þeir kunna líka að þegja. Prestar eiga að kunna að þegja. Í starfi sínu komast þeir að ýmsu sem ekki má tala um. Stundum er þeim trúað fyrir leyndarmálum í sálgæsluviðtölum. Þann trúnað verða þeir að halda," segir sr. Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur Akureyrarkirkju, í nýjum pistli á vefnum tru.is. Fólk eigi að geta treyst sálusorgara sínum en jafnframt segir Svavar að þeir prestar sem þegi um barnaníð séu komnir í lið með níðingunum.

Svavar bendir á að prestar séu ekki eina stéttin sem þurfi að gæta sérstaklega vel að þagmælskunni. Sálfræðingar, læknar, kennarar og lögreglumenn verði til dæmis líka að kunna að þegja. Þá leggi blaðamenn mikla áherslu á að halda trúnað.

„Heyrt hef ég blaðamenn segja að frekar færu þeir í fangelsi en að bregðast trúnaði um heimildarmenn sína," skrifar sr. Svavar.

Hvergi minnst á þagmælsku

Hann segist við vígslu sína í Hóladómkirkju á sínum tíma hafa gefið loforð er nefnist vígsluheit. Það standi skrifað í helgisiðabók þjóðkirkjunnar og stundum lesi hann það til að minna sig á hverju hann lofaði. Í þessu vígsluheiti sé hvergi minnst á þagmælsku þótt hún sé mikilvæg. En meðal þess sem hann hafi lofað fyrir altari dómkirkjunnar sé að vaka yfir sálarheill þeirra sem honum er trúað fyrir og „styðja lítilmagna og hjálpa bágstöddum“ eins og það er orðað.

„Börn sem sæta ofbeldi af hendi þeirra sem helst ættu að veita þeim skjól eru lítilmagnar. Ég get varla hugsað mér meiri lítilmagna en slík börn, varnarlaus og minnimáttar, beitt viðbjóðslegu ofbeldi af þeim sem þau treysta og elska. Prestar sem hafa vitneskju um barnaníð en þegja yfir því eru komnir í lið með níðingunum. Og þeir hafa tekið afstöðu gegn lítilmagnanum í stað þess að styðja hann," skrifar Svavar og bætir við:

„Sú þögn er rof á vígsluheiti og brot á loforði sem prestarnir gáfu á helgum stað. Í vígsluheitinu lofaði ég því líka að „vera sannleikanum trúr í kærleika“. Þögnin getur verið gulls ígildi en stundum er ekki til hættulegri lygi en þögnin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka