Lögregla og slökkvilið hefur mikinn viðbúnað í miðbæ Reykjavíkur vegna Menningarnætur. Útköll eru orðin fjölmörg en til þessa ekkert sem getur talist mjög alvarlegt, að sögn varðstjóra hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Sökum annríkis náðist ekki tal af varðstjóra hjá lögreglunni um miðnættið.
Auk nokkurra sjúkraflutninga vegna minniháttar pústra og óhappa var slökkviliðið kallað að Grillhúsinu við Tryggvagötu. Þar hafði eldur komið upp í grillinu en tekist hafði að slökkva eldinn er slökkviliðsmenn komu á vettvang.
Strax eftir flugeldasýninguna færðist mannfjöldinn frá Arnarhól og miðbakkanum inn í miðbæinn, aðallega á Austurstrætið þar sem er múgur og margmenni, að sögn slökkviliðsins. Bæði lögregla og slökkvilið er með aukamannskap og farartæki í miðbænum í nótt.