Andstæðingum aðildar Noregs að Evrópusambandinu hefur tekist að festa í huga margra Norðmanna þá ímynd, að þeir séu talsmenn alþýðunnar gegn embættismannaveldi og illum, erlendum öflum. Rökin sem beitt sé í deilunum um aðild hafi lítið sem ekkert breyst frá því að fyrst var kosið um aðild Norðmanna árið 1972.
Þetta segir Iver B. Neumann, prófessor og yfirmaður norsku Alþjóðamálastofnunarinnar, NUPI en hann flutti í hádeginu fyrirlestur á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og norska sendiráðsins. Neumann er sjálfur eindreginn stuðningsmaður aðildar og starfaði á sínum tíma í ungliðasamtökum aðildarsinna.
Hann var spurður hvaða ráðum væri hægt að beita til þess að hamla gegn þeim málflutningi andstæðinga aðildar að málið snerist um þjóðhollustu og baráttu gegn erlendri ásælni. ,,Ef ég vissi það væri ég löngu búinn að nota þau," svaraði Neumann.