Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands hefur sent frá sér athugasemd þar sem hann harmar að hafa farið rangt með í yfirlýsingu sinni í gær.
„Ég harma það að í yfirlýsingu minni í gær vegna máls Sigrúnar Pálínu Ingvarsdóttur árið 1996 var sagt að hún hafi kært þáverandi biskup til ríkissaksóknara. Hið rétta er að hann óskaði eftir því við ríkissaksóknara að fram færi opinber rannsókn og málshöfðun vegna rangs sakburðar og ærumeiðandi aðdróttana. Hann dró síðan kæruna til baka. Ríkissaksóknari taldi ekki efni til opinberrar málshöfðunar.
Karl Sigurbjörnsson."