Vilja fækka heilsugæslustöðvum

Nefnd sem heil­brigðisráðherra skipaði til þess að fara yfir mál­efni heilsu­gæsl­unn­ar legg­ur til að ár­lega næstu fimm árin verði 20 lækn­ar tekn­ir inn í sér­nám í heim­il­is­lækn­ing­um. Er það tal­in ein áhrifa­rík­asta leiðin til þess að draga úr lækna­skorti og styrkja heilsu­gæsl­una. Jafn­framt er lagt til að heilsu­gæslu­stöðvum verði fækkað og þær stækkaðar.

Næstu árin er talið að ár­lega þurfi að bæt­ast við 10-12 heim­il­is­lækn­ar til þess að halda í horf­inu. Til þess að styrkja heilsu­gæsl­una enn frek­ar þyrfti að opna mögu­leika til viðbót­ar fyr­ir 8-10 lækna á ári að hasla sér völl á þeim vett­vangi. Stöður þess­ar verði veitt­ar til allt að 4ra ára eða þar til náms­lækn­ir hef­ur lokið sér­nám­inu.

Tryggð verði aðstaða og mann­skap­ur til að halda utan um sér­námið, sem þar með taki einnig til um­skól­un­ar sér­fræðinga úr öðrum grein­um, sem kjósa að koma til liðs við heilsu­gæsl­una.

Þetta er meðal þess sem kem­ur fram í áfanga­skýrslu nefnd­ar­inn­ar.

Geta bet­ur mætt fag­leg­um kröf­um

Heilsu­gæslu­stöðvar verði færri og stærri á höfuðborg­ar­svæðinu og ann­ars staðar þar sem því verður við komið úti á landi. Í stað 5-7 lækna heilsu­gæslu­stöðva á höfuðborg­ar­svæðinu taki við allt að 15-20 lækna stöðvar.

Litl­ar heilsu­gæslu­stöðvar eru viðkvæm­ar fyr­ir allri rösk­un á starf­semi, svo sem vegna fría, náms­leyfa og veik­inda starfs­fólks. Stærri heilsu­gæslu­stöðvar bjóða upp á ný tæki­færi fyr­ir starfslið og starf­semi stöðvanna, auk þess sem auðveld­ara er að laga þjón­ust­una að þörf­um íbú­anna, að því er seg­ir í skýrsl­unni.

Burðugri heilsu­gæslu­stöðvar geta vænt­an­lega bet­ur mætt þeim fag­legu og fjár­hags­leg­um kröf­um sem starf­sem­in verður að lúta. Á stærri stöðvum er auðveld­ara að ráða sér­greina­lækna í ýms­um öðrum grein­um lækn­is­fræðinn­ar en heim­il­is­lækn­ing­um.

Á lands­byggðinni er mik­il­vægt að halda áfram samþætt­ingu og sam­ein­ingu heil­brigðis­stofn­ana í heil­brigðisum­dæmun­um, en stærð stofn­ana verður að sjálf­sögðu að taka mið af aðstæðum í hverj­um lands­hluta fyr­ir sig, sam­kvæmt skýrsl­unni.

Vilja setja verklags­regl­ur

Verklags­regl­ur verði sett­ar um stýr­ingu á flæði sjúk­linga frá einu þjón­ustu­stigi til ann­ars til þess að tryggja sam­fellu í meðferð sjúk­linga. Mik­il­vægt er að tryggja að fólk leiti að jafnaði fyrst til heilsu­gæsl­unn­ar með heilsu­far­svanda­mál sín.

Liggja þurfa fyr­ir verklags­regl­ur á grund­velli til­tek­inna skil­merkja um hvert skuli vísa sjúk­ling­um ef heilsu­gæsla get­ur ekki leyst er­indi þeirra. Verklags­regl­urn­ar gætu ann­ars verið af ýms­um toga, svo sem varðandi innra starf, teym­is­vinnu og sam­skipti við aðrar stofn­an­ir og þætti heil­brigðis­kerf­is­ins.

Eft­ir út­skrift af sjúkra­húsi skuli sjúk­ling­um gert að leita fyrst á göngu­deild­ir sjúkra­hús­anna líkt og þegar er gert á Land­spít­al­an­um. Verðstýr­ing komu­gjalda er áhrifa­ríkt tæki til þess að stýra sjúk­lingaflæðinu og beina fólki á rétt­an stað i heil­brigðis­kerf­inu, að mati skýrslu­höf­unda.

Til­vís­ana­skyldu verði komið á inn­an þriggja ára

Til­vís­ana­skylda er ein þeirra aðferða sem beitt er til þess að stuðla að skil­virkri verka­skipt­ingu í heil­brigðis­kerf­inu. Sýnt hef­ur verið fram á að heim­il­is­lækn­ir grípi síður til kostnaðarsamra aðgerða en sá sér­greina­lækn­ir sem fær sjúk­ling til sín í fyrsta sinn milliliðalaust.

Ráðist verði í að koma á sveigj­an­legri til­vís­ana­skyldu á næstu þrem árum. Til­vís­un­ar­skyld­an verði til að byrja með bund­in við til­vís­an­ir til gigt­ar­lækna, hjarta­lækna, lungna­lækna, efna­skipta­lækna og blóðmeina­fræðinga. Fljót­lega myndu síðan barna­lækn­ar, háls-, nef- og eyrna­lækn­ar og e.t.v. fleiri sér­grein­ar falla und­ir til­vís­ana­skyldu. Skipaður verði vinnu­hóp­ur til þess að vinna með heil­brigðis­yf­ir­völd­um að því að koma til­vís­ana­kerf­inu á og þróa það.

 Vilja nýj­an samn­ing við sjálf­stætt starf­andi heim­il­is­lækna

Nefnd­in tel­ur að heilsu­gæsl­an á höfuðborg­ar­svæðinu þurfi á öllu sín­um heim­il­is­lækn­um að halda. Frá því að upp­bygg­ing heilsu­gæslu­stöðva á höfuðborg­ar­svæðinu hófst á átt­unda ára­tugi hafa á bil­inu 10-20 sjálf­stætt starf­andi heim­il­is­lækn­ar rekið sín­ar stof­ur í Reykja­vík á grund­velli samn­ings við heil­brigðis­yf­ir­völd. Í dag eru þeir 12.

Nú­ver­andi samn­ing­ur fell­ur úr gildi um næstu ára­mót. Eðli­legt verður að telj­ast í ljósi ríkj­andi efna­hags­ástands að kjör þess­ara lækna verði færð til sam­ræm­ist við það sem ger­ist inn­an Heilsu­gæslu Höfuðborg­ar­svæðis­ins.

„Einnig get­ur ekki tal­ist óviðeig­andi að gera þá kröfu til þess­ara lækna að þeir sinni for­vörn­um og heilsu­vernd í rík­ara mæli en verið hef­ur, t.d. með því að starfa að heilsu­vernd í ein­hverri af heilsu­gæslu­stöðvum HH til­tek­inn tíma í viku hverri. Sam­kvæmt fast­lækna­skipu­lag­inu í Nor­egi starfa heim­il­is­lækn­ar 7 ½ klukku­stund utan eig­in stofu að for­vörn­um og fleiri slík­um verk­efn­um í viku hverri," seg­ir í skýrsl­unni.

Hér er hægt að lesa drög nefnd­ar­inn­ar

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert