Vilja fækka heilsugæslustöðvum

Nefnd sem heilbrigðisráðherra skipaði til þess að fara yfir málefni heilsugæslunnar leggur til að árlega næstu fimm árin verði 20 læknar teknir inn í sérnám í heimilislækningum. Er það talin ein áhrifaríkasta leiðin til þess að draga úr læknaskorti og styrkja heilsugæsluna. Jafnframt er lagt til að heilsugæslustöðvum verði fækkað og þær stækkaðar.

Næstu árin er talið að árlega þurfi að bætast við 10-12 heimilislæknar til þess að halda í horfinu. Til þess að styrkja heilsugæsluna enn frekar þyrfti að opna möguleika til viðbótar fyrir 8-10 lækna á ári að hasla sér völl á þeim vettvangi. Stöður þessar verði veittar til allt að 4ra ára eða þar til námslæknir hefur lokið sérnáminu.

Tryggð verði aðstaða og mannskapur til að halda utan um sérnámið, sem þar með taki einnig til umskólunar sérfræðinga úr öðrum greinum, sem kjósa að koma til liðs við heilsugæsluna.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í áfangaskýrslu nefndarinnar.

Geta betur mætt faglegum kröfum

Heilsugæslustöðvar verði færri og stærri á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar þar sem því verður við komið úti á landi. Í stað 5-7 lækna heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu taki við allt að 15-20 lækna stöðvar.

Litlar heilsugæslustöðvar eru viðkvæmar fyrir allri röskun á starfsemi, svo sem vegna fría, námsleyfa og veikinda starfsfólks. Stærri heilsugæslustöðvar bjóða upp á ný tækifæri fyrir starfslið og starfsemi stöðvanna, auk þess sem auðveldara er að laga þjónustuna að þörfum íbúanna, að því er segir í skýrslunni.

Burðugri heilsugæslustöðvar geta væntanlega betur mætt þeim faglegu og fjárhagslegum kröfum sem starfsemin verður að lúta. Á stærri stöðvum er auðveldara að ráða sérgreinalækna í ýmsum öðrum greinum læknisfræðinnar en heimilislækningum.

Á landsbyggðinni er mikilvægt að halda áfram samþættingu og sameiningu heilbrigðisstofnana í heilbrigðisumdæmunum, en stærð stofnana verður að sjálfsögðu að taka mið af aðstæðum í hverjum landshluta fyrir sig, samkvæmt skýrslunni.

Vilja setja verklagsreglur

Verklagsreglur verði settar um stýringu á flæði sjúklinga frá einu þjónustustigi til annars til þess að tryggja samfellu í meðferð sjúklinga. Mikilvægt er að tryggja að fólk leiti að jafnaði fyrst til heilsugæslunnar með heilsufarsvandamál sín.

Liggja þurfa fyrir verklagsreglur á grundvelli tiltekinna skilmerkja um hvert skuli vísa sjúklingum ef heilsugæsla getur ekki leyst erindi þeirra. Verklagsreglurnar gætu annars verið af ýmsum toga, svo sem varðandi innra starf, teymisvinnu og samskipti við aðrar stofnanir og þætti heilbrigðiskerfisins.

Eftir útskrift af sjúkrahúsi skuli sjúklingum gert að leita fyrst á göngudeildir sjúkrahúsanna líkt og þegar er gert á Landspítalanum. Verðstýring komugjalda er áhrifaríkt tæki til þess að stýra sjúklingaflæðinu og beina fólki á réttan stað i heilbrigðiskerfinu, að mati skýrsluhöfunda.

Tilvísanaskyldu verði komið á innan þriggja ára

Tilvísanaskylda er ein þeirra aðferða sem beitt er til þess að stuðla að skilvirkri verkaskiptingu í heilbrigðiskerfinu. Sýnt hefur verið fram á að heimilislæknir grípi síður til kostnaðarsamra aðgerða en sá sérgreinalæknir sem fær sjúkling til sín í fyrsta sinn milliliðalaust.

Ráðist verði í að koma á sveigjanlegri tilvísanaskyldu á næstu þrem árum. Tilvísunarskyldan verði til að byrja með bundin við tilvísanir til gigtarlækna, hjartalækna, lungnalækna, efnaskiptalækna og blóðmeinafræðinga. Fljótlega myndu síðan barnalæknar, háls-, nef- og eyrnalæknar og e.t.v. fleiri sérgreinar falla undir tilvísanaskyldu. Skipaður verði vinnuhópur til þess að vinna með heilbrigðisyfirvöldum að því að koma tilvísanakerfinu á og þróa það.

 Vilja nýjan samning við sjálfstætt starfandi heimilislækna

Nefndin telur að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu þurfi á öllu sínum heimilislæknum að halda. Frá því að uppbygging heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu hófst á áttunda áratugi hafa á bilinu 10-20 sjálfstætt starfandi heimilislæknar rekið sínar stofur í Reykjavík á grundvelli samnings við heilbrigðisyfirvöld. Í dag eru þeir 12.

Núverandi samningur fellur úr gildi um næstu áramót. Eðlilegt verður að teljast í ljósi ríkjandi efnahagsástands að kjör þessara lækna verði færð til samræmist við það sem gerist innan Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins.

„Einnig getur ekki talist óviðeigandi að gera þá kröfu til þessara lækna að þeir sinni forvörnum og heilsuvernd í ríkara mæli en verið hefur, t.d. með því að starfa að heilsuvernd í einhverri af heilsugæslustöðvum HH tiltekinn tíma í viku hverri. Samkvæmt fastlæknaskipulaginu í Noregi starfa heimilislæknar 7 ½ klukkustund utan eigin stofu að forvörnum og fleiri slíkum verkefnum í viku hverri," segir í skýrslunni.

Hér er hægt að lesa drög nefndarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert