Einsettu sér að opna umræðuna

Hús Stígamóta
Hús Stígamóta

Guðrún Jónsdóttir, sem starfaði á Stígamótum á þeim tíma þegar konurnar sem sökuðu Ólaf Skúlason biskup um kynferðisofbeldi leituðu þangað, sagði í Kastljósi í kvöld að eina lausn kvennanna hafi verið að opna umræðuna um kynferðisbrot í samfélaginu.

„Það að þær leita til okkar var kannski síðasta úrræði þeirra til þess að fá stuðning og áheyrn varðandi þessi máli," sagði Guðrún, en  konurnar leituðu til Stígamóta í febrúar 1995 eftir að þeir höfðu leitað til kirkjunnar til að fá viðurkenningu á málum sínum og afsökun.  Guðrún segir að þeim hafi verið fullljóst að mál þeirra væru löngu fyrnd en það hafi verið einbeittur og staðfastur vilji þeirra að opna umræðuna í samfélaginu um kynferðisbrot þannig að kirkjan gæti veitt þeim viðundandi svör. Stígamót hafi reynt að veita þeim stuðning og styrk til þess.

Guðrún sagði að baráttan hafi verið erfið en þær hafi samt orðið varar við mikinn stuðning almennings, mikið hafi verið hringt til að hvetja konurnar til að láta ekki þagga niður í sér og þar á meðal voru nokkrir prestar. „Þeir voru ekki margir en þeir voru nokkrir og það var mikill styrkur að heyra hjá prestum að þeir voru ekki einróma í því sem biskup var að segja."

Þá sagði Guðrún að síðan þetta var árið 1996 hafi margt verið gert innan kirkjunnar itl að búa til farveg til að kynferðisbrotamál fái eðlilega umfjöllun, en að hún teldi enn að kirkjan þyrfti að stíga skrefið til fulls og horfast í augu við að prestar og kirkjunnar menn geti framið kynferðisbrot eins og hver annar. Viðbrögð kirkjunnar svipaði um margt til viðbraðga fjölskyldna ofbeldismanna, þörfin fyrir að loka á umræðuna og vilja ekkert vita sé sambærileg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert