Financial Times fjallar í kvöld um makrílveiðar Íslendinga og segir að staðfestan til að halda hinum umdeildu veiðum áfram geti skaðað umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið. Sagt er frá því að gagnrýnendur saki Íslendinga um að efna til nýrra þorskastríða. Reiði á meðal sjómanna í Bretlandi og Írlandi fari vaxandi í garð Íslendinga.
Jafnframt vitnar Financial Times í Landssamband íslenskra útgerðarmanna um að þegar sé búið að veiða 60% af kvótanum og haldið verði áfram. Sigurður Sverrisson, upplýsinga- og kynningafulltrúi LÍÚ, neitar því í samtali við Financial Times að veiðarnar séu óábyrgar, þvert á móti hefðu Íslendingar getað veitt margfalt meira en kvótinn segir til um vegna þess hve mikið sé af makríl innan íslenskrar lögsögu.
„Þú gætir farið með veiðistöngina þína niður á höfn í Reykjavík og náð tugi fiska á innan við 30 mínútum," hefir FT eftir Sigurði. „Sjórinn er fullur af makríl." Þá segist Sigurður í viðtalinu vera vongóður um að samkomulag náist við Evrópusambandið og Noreg fyrir næsta ár.