Gjaldskrárhækkun ekki lokasvar

Orkuveita Reykjavíkur
Orkuveita Reykjavíkur mbl.is/ÞÖK

Sóley Tómasdóttir segir að heimilin í landinu megi ekki ein bera um byrðarnar af Orkuveitu Reykjavíkur. „Það er stjórnarfundur á föstudaginn og mér finnst mjög mikilvægt að við skoðum málið heildstætt þannig að við séum ekki bara að skella byrðunum á heimilin í landinu heldur að við tökum þessar pólitísku ákvarðanir sem varða það að hversu miklu leyti sá kostnaður, sem fallið hefur til vegna stóriðjustefna undanfarinna áratuga, eigi að lenda á almenningi."

Sóley segir að gjaldskrár Orkuveitunnar hafi vissulega ekki verið hækkaðar í rúm 2 ár og hún sé tilbúin að taka það til endurskoðunnar, „en við getum ekki bara sagt að við þurfum að fá auknar tekjur og skella því á almenning. Við verðum að endurskoða meira en gjaldskrána, við verðum líka að taka pólítískar ákvarðanir um hvernig henni verður breytt."

Sóley nefnir fyrir það fyrsta að verð til stóriðju verði gert opinbert. „Mér finnst mikilvægt að það liggi fyrir svo almenningur geti tekið afstöðu til þess. Svo þurfum við að skoða hvort hægt sé að taka þá samninga upp að einhverju leyti og við þurfum líka að skoða hvort við eigum að halda áfram framkvæmdum. Við þurfum að gæta þess að þetta sé allt saman gert í samræmi við hagsmuni almennings."

Ekki liggur fyrir hversu mikið gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur verður hækkuð en stjórnarformaður Orkuveitunnar lýsti því yfir í Morgunblaðinu í gær að hann reiknaði með að gjaldskráin yrði hækkuð um tveggja stafa tölu. Endanleg ákvörðun verður tekin um það á stjórnarfundi Orkuveitunnar á föstudaginn og segir Sóley að búast megi við löngum fundi þar sem ræða þurfi allar hliðar málsins.

Sóley Tómasdóttir
Sóley Tómasdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert