Fulltrúar Grundaskóla á Akranesi og Umferðarstofu ásamt samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skrifuðu í dag undir áframhaldandi samning um samvinnu um umferðarfræðslu í skólum. Greitt er eitt stöðugildi á þessu ári til að sinna verkefninu. Grundaskóli hefur verið móðurskóli umferðarfræðslu í grunnskólum landsins frá árinu 2005.
Samningurinn er rammasamningur um umferðarfræðslu í grunnskólum landsins og verður Grundaskóli áfram móðurskóli í því verkefni og öðrum grunnskólum til fyrirmyndar og ráðgjafar. Markmiðið með samningnum er að efla umferðarfræðslu í skólum og stuðla að fækkun umferðarslysa með markvissri fræðslu, samkvæmt tilkynningu.