Fréttaskýring: Kjörseðillinn yfir einn metra að lengd?

mbl.is/ÞÖK

Undirbúningur ráðgefandi stjórnlagaþings 15. febrúar er nú í fullum gangi en á undan honum verður haldinn þjóðfundur í Laugardalshöllinni með þúsund fulltrúum. Ætlunin er að á honum komi fram meginsjónarmið og áherslur almennings um stjórnskipan landsins og stjórnarskrána. Stjórnlaganefnd undir forystu Guðrúnar Pétursdóttur líffræðings mun vinna úr upplýsingum frá þjóðfundinum og afhenda þær stjórnlagaþinginu þegar það kemur saman. Einnig mun nefndin leggja sjálf fram hugmyndir að breytingum á stjórnarskránni.

Þorsteinn Fr. Sigurðsson rekstrarhagfræðingur er framkvæmdastjóri sérstakrar, þriggja manna undirbúningsnefndar stjórnlagaþings; fyrir henni fer Þorsteinn Magnússon, aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis. Þorsteinn Fr. segir að nú sé gert ráð fyrir að kostnaður vegna stjórnlagalagaþings muni verða alls um 500 milljónir króna. Þingið mun sitja í tvo mánuði en getur þó skilað af sér fyrr. Það getur einnig farið fram á að þing standi í allt að fjóra mánuði.

En ljóst er að það getur verið snúið fyrir einyrkja eða starfsfólk í mjög fámennum fyrirtækjum að taka sér frí svo lengi. Að sögn Þorsteins vona menn að allir vinnuveitendur sýni skilning og sveigjanleika. Þess ber að geta að þingfulltrúar fá sama kaup og alþingismenn.

Þegar stjórnlagaþingið, sem mun koma saman í Reykjavík, hefur samþykkt tillögu að breyttri stjórnarskrá verður hún send Alþingi til meðferðar. Ekki hefur enn verið fundið heppilegt húsnæði fyrir þingið og ekki heldur ákveðið með hvaða hætti starf þess verður kynnt jafnóðum. Þorsteinn segist þó gera fastlega ráð fyrir að netið verði notað til að senda frá fundum þingsins en ekki endilega frá nefndafundum.

– En hvernig er valið á sjálft stjórnlagaþingið?

„Kosningin fer fram 27. nóvember, landið verður eitt kjördæmi og allir geta boðið sig fram sem uppfylla skilyrðin um aldur, 18 ár, og annað sem til þarf þegar fólk sest á Alþingi,“ segir Þorsteinn. „En forsetinn, alþingismenn, varamenn þeirra, ráðherrar og liðsmenn stjórnlaganefndar og undirbúningsnefndar eru þó ekki kjörgengir.

Kynjajafnvægi á þinginu

Kjósandi getur merkt við einn frambjóðanda eða 25 en á seðlinum verða nöfn allra sem bjóða sig fram. Hann gæti því orðið mjög langur, dæmi eru um það erlendis að kjörseðill sé metri að lengd! En það er í sjálfu sér ekki hægt að setja nein takmörk á fjöldann.“

Send verða á hvert heimili sýnishorn af kjörseðli og getur fólk þá fyllt í reitina, farið með þann seðil á kjörstað og notað hann til hliðsjónar. Minnst 25 fulltrúar verða á þinginu en hægt að fjölga þeim í 31 ef nauðsyn krefur. Er þannig hægt að tryggja betra jafnvægi kynjanna ef svo fer að annað kynið fær innan við 10 sæti á þinginu. Þá verður einfaldlega fjölgað þingsætum.

Gagnrýnt hefur verið að tíminn til að ákveða framboð og kynna sig fyrir kjósendum sé of stuttur. Ljóst sé að þekkt fólk i þjóðlífinu muni hafa verulegt forskot á aðra. Að sögn Þorsteins verður sett upp heimasíða um mánaðamótin þar sem frambjóðendur verða kynntir. Einnig verði sendur inn á hvert heimili bæklingur með kynningu á þeim.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert