Þingmannanefnd sem fjallar um rannsóknarskýrslu Alþingis hefur fundað daglega að undanförnu. Atli Gíslason, formaður nefndarinnar, segir að það komi í ljós fljótlega hvort nefndin leggur fram tillögu fyrir þingið þar sem reynir á lög um ráðherraábyrgð.
Í nefndinni sitja níu þingmenn úr fimm flokkum. Atli sagði að nefndin væri að fara yfir alla skýrsluna og veita umsögn um einstaka kafla hennar. Nefndin á lögum samkvæmt að skila skýrslu til Alþingis og að taka afstöðu til þess hvort lögð verður fram þingsályktunartillaga í samræmi við lög um ráðherraábyrgð. Ef slík tillaga kemur fram og verður samþykkt á Alþingi verða ráðherrar dregnir fyrir landsdóm. Þingið hefur frest fram í lok september til að ljúka umræðu um þann þátt málsins, þ.e.a.s. ef nefndin leggur til að látið verði reyna á ráðherraábyrgð.
Atli segist vonast eftir að nefndin ljúki störfum fyrir 10. september. Hann segir að starfið í nefndinni hefði gengið vel og mönnum hafi gengið ágætlega að vinna saman. Hann vill þó ekki fullyrða um að full samstaða verði í nefndinni um niðurstöður hennar. Menn hafi eðlilega ekki sömu sýn á alla hluti. Það hafi hafi ekki enn reynt á það hvort nefndin verði sammála um lokaniðurstöðurnar.