Telja ráðherra ótrúverðugan

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hagsmunasamtök heimilanna hafa farið yfir aðkomu ráðherra efnahags- og viðskiptamála að málefni er varðar svokölluð gengistryggð lán (einnig nefnd myntkörfulán). Augljóst er að ráðherrann gat ekki annað en verið upplýstur um tvö lögfræðiálit/minnisblöð er bárust frá Seðlabanka Íslands í lok maí 2009. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum.

„Strax í kjölfarið gaf lögfræðingur ráðuneytisins frá sér eigið mat á lögmæti gengistryggingar lána og jafnframt lá fyrir mat lögfræðingsins Gísla Tryggvasonar, talsmanns neytenda, á sama málefni. Ráðherra hafði því 4 álit /minnisblöð innan úr stjórnsýslunni sem öll voru samhljóða um að verðbreytingarákvæði krónulána byggð á gengi erlendra gjaldmiðla, stönguðust á við lög 38/2001.

Aðspurður um lögmæti einmitt slíkra lána í júní 2009 segir ráðherrann beinum orðum að lögfræðiálit innan stjórnsýslunnar hnígi að því að lánin séu lögleg. Hártoganir um orðaval eru hér óþarfar, ráðherrann reynir vísvitandi að afvegaleiða Alþingi og þar með þjóðina. Spurningin er, hver á að njóta vafans ef einhver er og hvort Alþingi og þjóðin geti sætt sig við loðin svör ráðherrans í þessu máli eða öðrum? Að mati stjórnar HH ber að líta á ásetning ráðherrans. Hann var ekki ráðinn til að spila fyrir hönd fjármálafyrirtækja, fjárhættuspil við þjóðina með óséð spil á hendi. Það hefur ekki verið krafa Hagsmunasamtaka heimilanna að framkvæmdavaldið, sem slíkt, tæki afstöðu með einum aðila umfram aðra í þessu máli né öðrum.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa gert þá kröfu til Alþingis að það gæfi fyrirmæli til framkvæmdavalds um almennar aðgerðir til að vinda ofan af miklum skuldavanda heimilanna enda langt yfir hættumörkum í kjölfar hruns krónunnar. Lagðar voru fram tillögur þessa efnis af hálfu HH strax í febrúar 2009. Fulltrúar framkvæmdavaldsins hafa hinsvegar undir forystu efnahags- og viðskiptaráðuneytis auk fjármálaráðuneytis, FME og Seðlabanka Íslands með öllum tiltækum ráðum barist gegn þeim leiðréttingum sem HH hafa talað fyrir. Hér er á ferðinni hin raunverulega ógn gegn hagkerfi og samfélagi.

Eftir skoðun á ummælum Gylfa Magnússonar á fundum og í fjölmiðlum er það mat stjórnar HH að Gylfi Magnússon sé í ríkisstjórninni einhliða fulltrúi fárra fjármálafyrirtækja. Hann talar þeirra máli í einu og öllu án tillits til hagsmuna annarra þátttakenda í efnahagslífinu, svo sem eins og heimilanna og rekstrarfyrirtækja. Þetta endurspeglast mjög skýrt í framgöngu og ummælum Gylfa er varðar gengistryggðu lánin. Þar hefur hann gengið svo langt að hylma yfir með lögbrotum fjármálafyrirtækja, því þó svo að vafi hafi verið um það hvaða lán töldust í andstöðu við bókstaf laganna, þá voru öll lögfræðiálitin/minnisblöðin sammála um að gengistrygging væri ólögleg.

Gylfa Magnússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, bar því skylda til að vekja athygli lögreglu og saksóknara á lögbrotunum jafnframt því að svara fyrirspurnum Alþingismanna undanbragðalaust. Mat Hagsmunasamtaka heimilanna er að Gylfi Magnússon sé ótrúverðugur sem ráðherra efnahags- og viðskiptamála. Verði ráðherranum vikið, sjá samtökin kosti þess að fengin verði til starfans aðili sem gætir meira jafnvægis í viðhorfi sínu til aðila efnahagslífsins sem og í ráðgjöf til ríkisstjórnarinnar, svo ekki sé minnst á ábyrg svör til Alþingis," segir í yfirlýsingu frá Hagsmunasamtökum heimilanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka