Útboð í haust náist samkomulag við lífeyrissjóði

Kristján Möller
Kristján Möller mbl.is

Viðræður ríkisins við lífeyrissjóði um fjármögnun stórframkvæmda í vegagerð eru í fullum gangi og á niðurstaða að liggja fyrir í september. Gangi þetta eftir verður þá þegar hafist handa við útboð framkvæmda. Samgönguráðherra upplýsti þetta á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Kristján Möller samgönguráðherra fór yfir stöðu framkvæmda í samgöngumálum á ríkisstjórnarfundinum og kom þar fram að tvö opinber hlutafélög um vegaframkvæmdir verða stofnuð í næsta mánuði skv. lögum sem Alþingi hefur samþykkt. Annað félagið mun standa að lagningu hluta Vesturlandsvegar, Suðurlandsvegar og Reykjanesbrautar. Hins vegar mun Vegagerðin taka þátt í stofnun félags og eiga allt að 51% hlutafjár þess um gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

Fram kemur á upplýsingablaði sem ráðherrann kynnti í ríkisstjórn að staðfest sé að sveitarfélög og einkaaðilar séu tilbúnir að reiða fram allt að 200 milljónir kr. í hlutafé á móti ríkinu.

Undirbúningur að stofnun félaganna er langt á veg kominn og verða þau stofnuð um miðjan september.

„Samkvæmt 6. gr. laganna er félögunum heimilt að innheimta gjald fyrir notkun mannvirkjanna sem standa skal undir kostnaði við undirbúning og framkvæmd,“ segir í samantekt samgönguráðherra.

Þar segir einnig að á  þessu stigi viðræðna er gengið út frá því að fjármögnun verkefnanna verði með útgáfu á skuldabréfum sem skráð verði í Kauphöll Íslands. Um er að ræða fjármögnun á undirbúningskostnaði annars vegar og hins vegar framkvæmdunum sjálfum.

Takist samkomulag ekki við lífeyrissjóðina blasir hins vegar við verkefnaskortur í mannvirkjagerð í haust.

„Fjölmörgum verkefnum í vegagerð sem verið hafa í gangi undanfarin ár er að ljúka á þessu hausti. Aðeins nokkur verk verða þá í gangi og má þar m.a. nefna fyrstu áfanga á Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi sem ríkisstjórnin heimilaði útboð á í vor til að vinna tíma að hugsanlegum stórframkvæmdum með þátttöku lífeyrissjóða, samanber ofanritað. Ef þau verk komast ekki í gang er fyrirséður mikill verkefnaskortur hjá þeim sem vinna við slíka mannvirkjagerð.

Mikið er því í húfi að viðræður við lífeyrissjóðina beri árangur sem allra fyrst og ekki síðar en í septembermánuði. Gangi það eftir verður hægt að bjóða út verk þá þegar og tryggja ákveðið samhengi varðandi samgönguframkvæmdir,“ segir í samantekt samgönguráðuneytisins um stöðu opinberra framkvæmda í samgöngumálum.

 

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert