Séra Baldur Kristjánsson, fyrrum biskupsritari, segir á vef sínum að hann telji átakanlegt að ríkissaksóknari hafi ekki talið ástæðu til að rannsaka mál Ólafs Skúlasonar, biskups, á sínum tíma. Veltir Baldur því fyrir sér hvort ríkissaksóknari hafi verið beittur þrýstingi af ráðandi öflum í þjóðfélaginu.
Enginn vafi eftir vitnisburð Guðrúnar Ebbu og Birgis Áss
„Auðvitað átti að fara fram rannsókn og vitnaleiðslur. Ég held að þöggun hafi verið í gangi, ekki innan kirkjunnar endilega heldur í jafnaldrahópi Ólafs miklu fremur, áhrifamannanna í samfélaginu. En ég trúi konunum og hef alltaf gert. Við á Biskupsstofu orðuðum þetta gjarnan svo: Eitthvað hlýtur að vera til í þessu. Ólafur var hins vegar alltaf kotroskinn og eins og lokuð bók. Eftir vitnisburð Guðrúnar Ebbu og Birgis Áss er enginn vafi í mínum huga.
Ég var ekki prestur þarna heldur biskupsritari og sem slíkur staðgengill biskups í stjórnsýslulegum málefnum. Við reyndum að halda utan um embættið eins og hægt var. Þetta var hræðilegur tími fyrir mig og allt starfsfólk Biskupsstofu, konur og karla um 30 manns. Sumir hafa aldrei náð sér. Ekki bara að þurfa að búa við yfirmann sem var sakaður um níðingsskap sem augljóslega var eitthvað til í, heldur stóð af þessum ástæðum og öðrum sífelldur stormur á húsið og fólkið og talað var um fólkið sem vann þar og kirkjuna eins og hóp af perrum. Þetta hafði áhrif inn í margar fjölskyldur og neikvæð áhrif á líf margra," skrifar Baldur á vef sinn.
Drap 30 flugur á meðan frásögn stóð
Hann fjallar um þær deilur sem voru í gangi innan kirkjunnar á þessum tíma, það er á tíunda áratugnum.
„Hver man ekki eftir Flóka, Torfa, Svartstökkum. Einu sinni æsti Flóki sig svo í símann við mig á föstudegi (út af mistökum launaskrifstofu) að ég skalf alla helgina. Einu sinni var ég sendur norður til að eiga við Torfa Hjaltalín á Möðruvöllum. Hann hleypti mér ekki einu sinni inn. Ég talaði við hann úti á túni smá stund en fór svo suður aftur. Það var æsingur í mönnum. Ég sá um erlend samskipti. Allir fundir erlendis enduðu á því að ég gaf skýrslu um biskupsmál á Íslandi. Danskur biskup drap þrjátíu flugur meðan ég sagði frá," segir Baldur í grein sinni.
Auðvitað var um þöggun að ræða
Annað atriði í þessu máli er, eins og Sigríður Guðmarsdóttir bendir á, hvað gerðist 1996 eftir að konurnar þrjár komu fram með ásakanir sínar.
„Var reynt að þagga málið niður? Auðvitað var það reynt. Vandræðin voru þau að biskupinn neitaði öllu og menn vissu ekki sitt rjúkandi ráð og reyndu svona í aðra röndina að telja sér trú um að eitthvað væri að þessum konum.
Ég held að það sé þó ekki hægt að benda á neina ákveðna þöggunartiburði og gleymi ég þá ekki fundi Hjámars og Karls með Sigrúnu Pálínu þar sem orð stendur gegn orði og var ábyggilega farið af stað með góðum ásetningi. Ég held að aðal þöggunin hafi átt rætur sínar í vina- og kunningjahópi Ólafs en hann átti vini meðal stjórnmálamanna og annarra áhrifamanna.
Vinmargur maður Ólafur og þekkti ,,alla“. Fjölmargir vildu honum vel og töldu ásakanirnar gegn honum ráðabrugg. Kirkjufólkið, prestarnir og starfsmenn biskupsstofu voru ráðalausir en trúðu margir konunum.
Allir kjömsuðu þó á sögum um Pálínu og Ólaf líka. En það var ekki skipulegur rógburður, þannig eru bara Íslendingar. Smjattað var um allt land, til sjávar og sveita. Þegar leið á tímabilið fjölgaði þeim sem lögðu að Ólafi að segja af sér.
Ég man eftir fundi þar sem ég sjálfur, Karl Sigurbjörnsson og Guðmundur Þorsteinsson lögðum að Ólafi að segja af sér. Þeir leiðrétta mig þá ef mér misminnir. Það var mönnum erfitt. Hann var svo kotroskinn. Ólafur var mjög yfirþyrmandi maður og réði svæðinu sem hann var á hverju sinni. Hann var óskorðaður foringi jafnaldra sinna í preststétt. Ég man eftir séra Karli á þessum tíma. Hann var fyrst og síðast mjög áhyggjufullur.
Hefur einhver verið í fjölskyldu þar sem heimilisfaðirinn er ásakaður fyrir það að vera kynferðisglæpamaður. Sá hinn sami gæti skilið hvernig okkur leið að breyttu breytanda.
Sannleiksnefnd á að fara í þetta mál. Og ekki bar að spyrja Karl og Hjálmar útúr heldur þá sem höfðu almennt mikil áhrif í samfélaginu á þessum tíma. Með þessu er ég ekki að drepa málinu á dreif. Ólafur biskup átti stóran og traustan vinahóp með ítök víða.
Þriðja málið, samkvæmt greiningu Sigríðar, er þagnarskyldan. Þagnarskyldan er auðvitað rík en engin regla er án undantekninga. Ef lífi eða sálarheill barna eða fullorðinna er stefnt í tvísýnu verður sálusorgari samsekur ef hann rífur ekki trúnað. Það er ekki nóg að afstýra atburði sem ég veit að Geir Waage myndi gera, því að hann er umhyggjusamur maður. Það verður að rjúfa trúnað, annars gæti atburður orðið síðar. Almenn skynsemi ætti að segja fólki hvenær undantekning er nauðsyn. Barnaverndarlög hjálpa þeim sem ekki hafa slíka. Landslögum ber að hlíta," segir ennfremur í grein Baldurs.