Verri kostur að hætta núna

Árni Þór Sigurðsson
Árni Þór Sigurðsson Ómar Óskarsson

„Það er ekkert nýtt að þingflokkur Vinstri-grænna sé ekki alveg sammála í þessu máli,“ segir Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, um þá skoðun Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að hætta skuli aðildarviðræðum við Evrópusambandið (ESB).

„Það lá fyrir þegar þessi ríkisstjórn var mynduð að það yrði lögð fram tillaga fyrir Alþingi um viðræður við Evrópusambandið og við vitum alveg hvernig sú atkvæðagreiðsla fór í þingflokki VG. Þar voru skiptar skoðanir en meirihlutinn vildi að það yrði farið í þessar viðræður og niðurstaðan lögð fyrir þjóðina.“

Árni bendir á að í stjórnarsáttmálanum sé tekið fram að flokkarnir skuli virða sjónarmið hvors annars og þingmenn hafi rétt til að hafa uppi málflutning varðandi ESB, samkvæmt sinni sannfæringu.

„Jón er bara að lýsa sínum skoðunum og sjónarmiðum og ég virði það og ætlast til þess að mín sjónarmið séu líka virt.“

Árni segir mikilvægt að þjóðin taki ákvörðun um inngöngu í ESB í lýðræðislegri þjóðaratkvæðagreiðslu, en þá verði hún að hafa einhvern samning á borðinu til að kjósa um.

„Ég hef enga trú á því að ef menn myndu hætta þessu núna væri málið bara dautt og afgreitt. Umræðan og átökin myndu að sjálfsögðu halda áfram, án þess að þjóðin fengi að koma að þeim. Og það finnst mér verri kostur, líka fyrir þá sem eru andsnúnir aðild.“

Árni segir flokkinn skuldbundinn til þess að leyfa þjóðinni að ráða, það hafi komið fram á landsfundinum í fyrra.

„Þjóðin á að taka ákvörðun um örlög sín í þessu máli. Mér finnst það bara vera lýðræðislega rétt.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert