Ekki talin þörf á aðgerðum vegna kanína

Kanína Í Elliðaárdal.
Kanína Í Elliðaárdal.

Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkur segir, að ekki hafi reynst þörf á neinum sértækum aðgerðum vegna kanína í borgarlandinu.   Nokkuð hefur borið á ábendingum frá íbúum til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna villtra kanína. 

Kanínur hafa náð fótfestu í villifánu Íslands á liðnum áratugum  eftir að gæludýraeigendur tóku að sleppa þeim lausum. Í Reykjavík má helst koma auga á þær í Öskjuhlíð, Heiðmörk og Elliðaárdal.

Ekki er vitað hvað kanínurnar í borgarlandinu eru margar en við hagstæð skilyrði fjölgar þeim hratt og hlýindi og mildir vetur hafi bætt lífsskilyrði þeirra.  Umhverfis- og samgöngusvið hefur heimild til að veiða kanínur þar sem hætta er talin stafa af þeim til dæmis á fjölförnum umferðargötum.

Umhverfissvið segir, að aðeins megi halda kanínur sem gæludýr í Reykjavík og þá innan girðinga og lóðamarka. Ekki megi fóðra þær utan þeirra. 
Besta leiðin til að draga úr fjölgun villtra kanína sé að gæludýraeigendur fari að reglugerð um gæludýr, hætti að sleppa þeim lausum og að hætt verði að fóðra villtar kanínur í borgarlandinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert