ESB gagnrýnir makrílveiðarnar

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ítrekaði í dag gagnrýni sína á makrílveiðar Íslendinga og Færeyinga og sagði að einhliða kvóti, sem þessar þjóðir hefðu gefið út, stofnaði makrílstofninum í hættu. 

Oliver Drewes, talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum, sagði á fundi með blaðamönnum í Brussel í dag, að málið yrði rætt við Íslendinga og Færeyinga á tæknifundi í september. 

„Þeir veiða meira, en réttlætanlegt er á grundvelli vísindalegra gagna," hefur AFP fréttastofan eftir Drewes. Hann ítrekaði að samkvæmt þessu væru veiðarnar úr makrílstofninum ekki sjálfbærar.

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, heimilaði í vor veiðar á allt að 130 þúsund tonnum af makríl. Þá hafa Færeyingar ákveðið 85 þúsund tonna kvóta fyrir sín skip, sem er þrisvar sinnum meira en kvóti sem þeir höfðu áður samið um við Evrópusambandið. 

Skoskir og norskir sjómenn hafa gagnrýnt þetta harðlega og Struan Stevenson, skoskur Evrópuþingmaður, hefur hvatt til þess að Evrópusambandið seti hafnbann á íslensk og færeysk skip vegna „makrílstríðsins." 

Haft var eftir Stevenson í breskum fjölmiðlum um helgina að Íslendingar og Færeyingar höguðu sér eins og víkingarnir forðum en í þetta skiptið væru þeir að ræna makrílnum frá Skotum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert