Mestmegnis sama verð

mbl.is/Eyþór

Vörulisti IKEA er kominn út og mun berast heimilum landsins á næstu dögum. Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, segir að verðin í vörulistanum standi að mestu í stað frá því í fyrra.

„Sumt hækkar og annað lækkar, þetta veltur allt á innkaupaverðunum til okkar og svo áætlun sem við gerum fyrir árið um hversu margir hlutir seljist,“ segir Þórarinn og nefnir sem dæmi að leðursófar, sem einungis seljist í 5-10 eintökum yfir árið, muni hækka um 20-30 þúsund krónur en verð á hlutum eins og bókahillum, sem seljist í 200 eintökum á viku, standi í stað.

Smávaran sé heldur að lækka, enda seljist mest af henni.

IKEA gefur út vörulista í ágúst á hverju ári og gefur viðskiptavinum loforð um að verðin muni ekki hækka á milli vörulista.

Verslunin á Íslandi hefur getað staðið við það loforð í ár en eins og kunnugt er þurfti IKEA að hækka öll verð um 20% í nóvember árið 2008 vegna efnahagshrunsins.

Það var einsdæmi í 60 ára sögu IKEA. Verðin hækkuðu svo aftur þegar vörulistinn 2009 var gefinn út en í ár, að sögn Þórarins, stendur verðlagið heilt yfir í stað.

Hins vegar þurfi verslunin að skila inn verðum fyrir vörulistann fjórum mánuðum áður en hann kemur út, því um er að ræða eitt stærsta prentverk í heimi, og því hafi verðin verið ákveðin í apríl, áður en krónan tók að styrkjast.

„Við ákváðum að veðja á að gengið myndi haldast en sáum auðvitað ekki fyrir þessa styrkingu krónunnar. Vonandi heldur styrkingin áfram, eða stendur allavega í stað,“  segir Þórarinn og finnst líklegt að fari svo, muni verðin í vörulistanum vera hámarksverð og verð á einstaka vörum lækki á tímabilinu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert