Útvarpsþátturinn vinsæli Orð skulu standa sem Karl Birgisson, Davíð Þór Jónsson og Hlín Agnarsdóttir sáu um hefur verið á dagskrá Ríkisútvarpsins síðastliðin átta ár. Vegna niðurskurðar hjá stofnuninni hefur þættinum þó verið aflýst. Aðstandendur þáttarins dóu ekki ráðalausir og hafa nú ákveðið að halda lífi í þættinum og setja hann á svið í Borgarleikhúsinu.
Um er að ræða nýjung í íslensku leikhúsi en hér er blandað saman útvarpsefni og sviðslist með hjálp áhorfenda.
„Þessi hugmynd kviknaði í sumar, þegar okkur var tilkynnt að útvarpsþátturinn sjálfur yrði ekki lengur í Ríkisútvarpinu,“ segir Karl. „Við nenntum ekkert að vera að væla yfir því eða kvarta, ákváðum bara að taka þessa hugmynd og búa til eitthvað nýtt úr henni“.
Hilmir Snær á von á því að þessi nýjung verði vinsæl enda átti þátturinn marga hlustendur sem væntanlega hafa verið miður sín yfir missinum.