Tryggja nefnd óheftan aðgang

Stefnt er að því að rannsókninni ljúki í síðasta lagi …
Stefnt er að því að rannsókninni ljúki í síðasta lagi fyrir kirkjuþing 2011. mbl.is

„Þetta er auðvitað ekki rannsókn á málinu sem slíku sem sakamáli, heldur á starfsháttum kirkjunnar og viðbrögðum við þessum ásökunum," segir Pétur Kr. Hafstein, fyrrverandi hæstaréttardómari sem fer fyrir forsætisnefnd, sem fengið hefur verið að móta fyrir kirkjuþing tillögur að rannsóknarnefnd vegna mála Ólafs Skúlasonar biskups.

Pétur segir að markmiðið með skipun nefndarinnar sé að loka málinu „og upplýsa það alveg eins og hægt er og draga lærdóm af því sem fram kemur í niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar."

Rannsóknarnefndin verður skipuð faglærðu fólki óháðu stofnunum og embættum kirkjunnar en  verkefni forsætisnefndar er m.a. að setja ramma um verksvið rannsóknarnefndarinnar og valdheimildir.

„Við setjum starfsreglur um þessa rannsóknarnefnd sem eiga að tryggja að hún eigi óheftan aðgang að öllum þeim heimildum um þessi mál sem finnanleg eru innan þjóðkirkjunnar."

Auk þess segir Pétur að ætla megi að kallaðir verði til viðtals allir þeir sem komu að málinu með einhverjum hætti í fyrri tíð. Þegar rannsóknarnefndin lýkur störfum sínum verður niðurstaðan gerð opinber.

Kirkjuþing kemur saman þann 13. nóvember næstkomandi og verður þá kosið um tillögur forsætisnefndar að  rannsóknarnefndinni. Lögð er áhersla á að rannsóknarnefndin hraði störfum sem kostur er og segir Pétur að miðað sé við að niðurstaðan liggi fyrir eigi síðar en á kirkjuþingi að ári, en helst miklu fyrr.

Pétur Kr. Hafstein
Pétur Kr. Hafstein
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert