20 sagt upp hjá Jarðborunum

Jarðboranir hafa sagt upp 20 starfsmönnum og  taka uppsagnirnar til allra deilda félagsins. Félagið segir, að meginástæðan fyrir þessum uppsögnum sé sá dráttur, sem orðið hafi á fyrirhuguðum framkvæmdum við orkuöflun í tengslum við álverið í Helguvík.

Starfsmönnum fækkað úr 210 í 90 á tveimur árum

Jarðboranir hafa eins og fjölmörg íslensk fyrirtæki þurft að draga saman seglin í þeirri efnahagslægð sem nú ríkir. Fyrir utan almennar hagræðingaraðgerðir hefur félagið neyðst til að fækka starfsmönnum úr 210 niður í 90 á tveimur árum.

„Ljóst er að áframhaldandi frestun jarðhitaverkefna hérlendis veldur örðugleikum í starfsemi félagsins. Enn er þó haldið í þá von að verkefnastaðan glæðist á næstu mánuðum, sem gerði kleift að draga einhverjar uppsagnir til baka. Mikil verðmæti í húfi Þrátt fyrir þrönga verkefnastöðu hérlendis síðustu misseri hefur félagið reynt að fresta uppsögnum eins og frekast er kostur í þeirri viðleitni að halda í verðmæta reynslu og þekkingu starfsmanna sem er mjög sérhæfð.

Fyrir utan þau verðmæti sem tapast við frestun á arðbærum framkvæmdum, og talað hefur verið um sem veigamikinn þátt í endurreisn efnahagslífsins, er hætt við að þjóðin glati mikilvægri þekkingu og forskoti í jarðvarmanýtingu sem aðrar þjóðir hafa svo mikinn áhuga á," segir í tilkynningu frá félaginu sem er í eigu Geysis Green Energy.

Aukin áhersla á verkefni erlendis

Í ljósi breyttrar stöðu hefur félagið lagt enn meiri áherslu á verkefnaöflun erlendis, ekki aðeins á sviði jarðhita sem hefur verið sérgrein Jarðborana fram að þessu, heldur einnig á sviði borana eftir olíu og gasi. Þessi nýja áhersla hefur þegar skilað dótturfélagi Jarðborana í Þýskalandi, Heklu Energy, verkefni við borun eftir gasi í Sviss. Langt er þó í land að verkefnaöflun ytra vegi upp hinn mikla verkefnamissi hér heima, að því er fram kemur í tilkynningu.

Jarðboranir
Jarðboranir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert