Ásta dregur umsókn til baka

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður

Ásta H. Bragadóttir hefur dregið til baka umsókn sína um starf framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs. Hún gerði það í kjölfar bókunar stjórnar sjóðsins í dag. Þar segir m.a. að félags- og tryggingamálaráðherra leggi til að skipuð verði valnefnd til að leggja mat á umsækjendur um stöðuna.

Ásta hefur verið starfandi framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs frá því að Guðmundur Bjarnason lét af störfum og hefur einnig verið aðstoðarframkvæmdastjóri sjóðsins. Hún staðfesti í samtali við mbl.is í kvöld  að hún hafi ákveðið að draga umsókn sína til baka.

Ásta vildi ekki tjá sig umfram það sem fram kemur í bréfi sem hún sendi samstarfsfólki í tölvupósti nú síðdegis. Þar segir:

„Á fundi stjórnar í dag var gerð eftirfarandi bókun :
 
Stjórninni hefur borist erindi frá Félags- og tryggingamálaráðherra, dagsett 26.ágúst 2010.  Þar setur hann fram þá hugmynd að skipuð verði valnefnd þriggja til fjögurra einstaklinga sem leggi mat á umsækjendur um stöðu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs, þar sem ekki hefur tekist full samstaða í stjórn sjóðsins um ráðninguna.
Að loknum umræðum lagði formaður fram þá tillögu að valnefnd yrði skipuð sem gerði tillögu til stjórnar um ráðningu framkvæmdastjóra úr hópi umsækjenda.
Stjórnin samþykkti tillöguna og einnig að eftirtaldir aðilar yrðu tilnefndir í valnefndina :
 
Jón Sigurðsson, lektor við HR
Dr. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, lektor við hagfræðideild HÍ
Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari
 
Elín R. Líndal óskar eftir að bókað verði að hún sitji hjá við afgreiðslu tillögunnar.

 
Í kjölfar ofangreindrar bókunar hef ég ákveðið að draga umsókn mína um starf framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs til baka.
 
Umsóknarferlið allt hefur tekið langan tíma og enn sér ekki fyrir endann á því.  Ferlið hefur verið unnið með ráðgjöfum Capacent  sem samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins styðjast við bestu mögulegu aðferðir í öllu því sem snýr að ráðningum, m.a. með viðurkenndum viðtalsaðferðum og notkun annarra matstækja s.s. starfsgreiningaaðferða, persónuleikaprófa og fleira.
 
Sú leið sem stjórn ÍLS hefur nú ákveðið að fara, að fenginni tillögu ráðherra, mun vonandi leiða til þess að ákvörðun verði tekin fljótlega um ráðningu.  Mitt nafn verður þó ekki í þeim potti umsækjenda sem til greina koma, enda lít ég svo á að þar sem stjórnin treysti sér ekki til að taka ákvörðun, byggða á því ráðningarferli og viðtölum sem nú þegar hafa farið fram, sé það fullreynt að af ráðningu minni verði.  Eftir því sem ég best veit hafði fengist meirihluti fyrir ráðningu minni, en ákvörðun hefur enn verið frestað  og sett í nýjan farveg með íhlutun ráðherra.
 
Ég vil sérstaklega þakka ykkur öllum einstakan stuðning og hlýhug nú í sumar og ég verð að segja að þrátt fyrir vonbrigði um að hafa ekki „landað“ starfinu, þá bý ég að því að starfsfólk ÍLS  hafi litið svo á að ég væri hæf til að gegna stöðu framkvæmdastjóra.  Fyrir það vil ég þakka enn og aftur.
 
Verkefni okkar framundan eru gríðarleg og ég veit að við munum takast á við þau með sama dugnaði og við höfum sýnt fram að þessu.  Nú þegar hefur framkvæmdastjórn lagt fram tillögur til stjórnar um stefnumörkun vetrarins, eitthvað af þeim tillögum mun verða hrint í framkvæmd á næstunni, aðrar verða að bíða nýs framkvæmdastjóra.
 
Bestu kveðjur
Ásta“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert