Íslandsbanki fjármögnun hefur ákveðið að senda ekki út greiðsluseðla vegna gjalddaga í september á bílalánum og kaupleigusamningum í erlendri mynt. Áður hafði bankinn frestað gjalddögum í júlí og ágúst á fyrrgreindum lánum, þar sem óvissa ríkti um hvernig haga skyldi endurreikningi þeirra í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 16. júní um ólögmæti lánanna.
Beðið eftir dómi Hæstaréttar þann 6. september
„Íslandsbanki fjármögnun hóf að undirbúa endurreikning ofangreindra lána í júlí eftir tilmæli frá Seðlabanka Íslands og FME, og miðar þeirri vinnu vel. Þann 6. september nk. verður hinsvegar tekið fyrir í Hæstarétti mál sem snýr að vaxtaþætti bílalána og kaupleigusamninga í erlendri mynt.
Niðurstaða Hæstaréttar mun hafa áhrif á endurútreikninga og því er ekki hægt að ljúka við þá fyrr en dómsniðurstaða liggur fyrir síðar í sama mánuði. Af þeim sökum hefur verið ákveðið að fresta gjalddaga fyrir september eins og áður segir," segir í tilkynningu frá Íslandsbanka.
Líkt og fram kom á mbl.is á þriðjudag munu fjármögnunarfyrirtækin Avant og SP-fjármögnun ekki senda út greiðsluseðla vegna gengistryggðra lána um mánaðamótin.