Hæstiréttur hefur hafnað kröfu húsfélags fjölbýlishúss í Reykjavík um að íbúi í húsinu verði borinn út úr íbúð sinni vegna hávaða, sem borist hefur frá íbúðinni í nokkur skipti. Einnig krafðist húsfélagið þess að íbúanum yrði gert að selja íbúðina.
Húsfélagið samþykkti á fundi í júlí á síðasta ári að skora á íbúann að virða gildandi umgengnisreglur. Var sú áskorun birt íbúanum með stefnuvotti og tekið fram, að yrði ekki orðið við henni mundi stjórnin leggja fyrir húsfélagsfund að krefjast útburðar.
Húsfélagið segir, að maðurinn hafi ekki sinnt þessari aðvörun og lögregla hafi ítrekað síðan verið kvödd í húsið vegna hávaða frá íbúðinni. Í nóvember var haldinn annar húsfélagsfundur og þar var samþykkt að gera íbúanum að flytja úr húsinu í síðasta lagi í janúar og selja eignarhluta sinn, með vísan til laga um fjöleignahús.
Íbúinn sinnti þessum kröfu ekki og þá höfðaði húsfélagið útburðarmál. Héraðsdómur kannaði hjá lögreglu hve oft hún hefði verið kölluð í húsið vegna hávaða. Í ljós kom að það gerðist tvisvar frá nóvember 2008 til júlí 2009. Því taldi héraðsdómur ekki að aðvörunin í júlí hefði átt rétt á sér þar sem ekki lægi fyrir að maðurinn hafi þá gerst sekur um gróf eða ítrekuð brot.
Eftir þetta, eða frá júlí og fram í nóvember, fékk lögreglan fimm tilkynningar um hávaða í íbúðinni og í tveimur tilfellum fór lögreglan á vettvang og hafði afskipti af manninum.