Íslendingar eiga rétt á að veiða makríl í sinni lögsögu en þeir vilja komast að samkomulagi við aðrar þjóðir um veiðarnar, að því er Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði í samtali við Channel 4 í Bretlandi í dag. Hann benti á að Ísland eigi rétt á veiðunum sem strandríki.
Jón hefur rætt við fjölmiðla í Bretlandi í dag um makrílveiðar Íslendinga en veiðar Íslendinga og Færeyinga hafa vakið hörð viðbrögð, einkum í Skotlandi. Jón sagði í samtali við Channel 4 að hann teldi að hlýnun sjávar í kringum Ísland ætti sinn þátt í auknum makrílgöngum hingað.