Landsbankinn auglýsir eftir framkvæmdastjórum

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, kynnti nýtt skipurit fyrir starfsmönnum í dag. Það tekur gildi 1. október nk. en með því verða gerðar töluverðar breytingar á skipulagi bankans og áherslum hans. Stöður framkvæmdastjóra átta eininga verða auglýstar.

Í skipuritinu eru átta meginsvið. Þar fá viðskipta- og afkomueiningar aukið vægi en þær verða fimm talsins: viðskiptabanki, fyrirtækjabanki, fjárstýring og markaðir, eignastýring og endurskipulagning eigna sem er ný eining.  Hin þrjú meginsviðin eru áhættustýring, fjármál og þróun, sem er nýtt svið. 

Stöður framkvæmdastjóra allra þessara átta eininga verða auglýstar lausar til umsóknar. Á heimasíðu Landsbankans segir, að bankastjóri og bankaráð Landsbankans leggi mikla áherslu á að stjórnendur sæki sér nýtt og óskorað umboð og að samhentur forystuhópur myndist um ný markmið og stefnu bankans.

Meðal annarra lykileininga í bankanum eru innri endurskoðun sem heyrir beint undir bankaráð, umboðsmaður viðskiptavina, regluvarsla og lögfræðiráðgjöf auk skrifstofu bankastjóra.

Þá verður komið  á fót sérstökum hópum til að vinna að endurskipulagningu skuldsettra heimila og fyrirtækja með heildstæðari hætti en áður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert