Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, var kjörin formaður Vestnorræna ráðsins á lokadegi 26. ársþings þess á Grænlandi í gær.
Ólína tekur við embættinu af Josef Motzfeldt forseta grænlenska Landsþingsins, sem heitir Inatsisartut eftir að Grænland hlaut sjálfstjórn.
Ólína sagði í ræðu, sem hún hélt er hún tók við embættinu, að hún muni leggja höfuðáherslu á að þrýsta á ríkisstjórnir Íslands, Færeyja og Grænlands að styrkja samstarf landanna varðandi sjávarútvegsmál.
Þá vilji hún reyna að ná samkomulagi um sameiginlega stjórnun veiða úr deilistofnum til að tryggja sjálfbærar veiðar úr þeim.
Hún sagðist jafnframt ætla að leggja áherslu á að löndin efldu samstarf sitt í menntamálum og þá sérstaklega hvað varðar fjarnám.
Á ársþinginu voru samskipti Vestur-Norðurlanda við ESB rædd, lýst yfir rétti landanna til sjálfbærra veiða hvala og sela auk þess sem ríkissjónvarpsstöðvarnar voru hvattar til samstarfs um að auka fréttaflutning frá nágrannalöndunum.
Ráðið hvatti jafnframt til að einokun birgðasiglinga á austurströnd Grænlands yrði aflétt.
Auk Ólínu sitja Josef Motzfeldt forseti Landsþings Grænlands og Kári P. Højgaard þingmaður í Færeyjum í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins.
Formaður ráðsins er kjörinn til eins árs en Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur Alþingis, Landsþings Grænlands og Lögþings Færeyja.