Jón Bjarnason, landbúnaðarráðherra, lýsti þeirri skoðun á fundi með fulltrúum kaupmanna í gær, að ákvörðun hans um að leggja verðtolla á innfluttar landbúnaðarvörur í stað magntolla sé lögleg.
Eftir sem áður varð það að samkomulagi milli aðila að fara sameiginlega yfir þessi mál á næstu vikum.
Í tilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, segir að Jón Bjarnason, landbúnaðarráðherra, hafi breytt reiknireglu við útreikning á tollum vegna úthlutunar á svökölluðum WTO tollkvótum á árinu 2009. Breytingin fólst í því að í stað svonefndra magntolla, sem er ákveðin krónutala á hvert kíló, var lagður á verðtollur, sem leggst á verðmæti innfluttrar vöru. Segir ráðuneytið að þetta hafi að sjálfsögðu verið gert innan ramma íslenskra laga og alþjóðasamninga.
Félag atvinnurekenda (FA) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa gagnrýnt þetta harðlega og sendu umboðsmanni Alþingis kæru vegna málsins. Í tilkynningu ráðuneytisins segir síðan:
„Sömuleiðis hefur FA vitnað til nýlegs bréfs umboðsmanns varðandi úthlutun á tollkvótum og túlkað það þannig að umboðsmaður taki undir gagnrýni þeirra. Af þessu tilefni vill ráðuneytið taka fram að umrætt bréf umboðsmanns fjallaði um beiðni Sælkeradreifingar ehf. um endurúthlutun á tollkvótum og þar af leiðandi um óskylt mál. Tekið skal fram að umboðsmaður taldi ekki tilefni til að aðhafast frekar út af þeirri kvörtun. Því gætir þess misskilnings, að fyrir liggi að umboðsmaður Alþingis hafi fjallað um ofangreinda breytingu á reiknireglu. Því fer fjarri."