Umboðslaus rannsóknarnefnd

Ekki er efi í huga forsvarsmanna Geysis Green Energy um að viðskipti félagsins við Magma Energy Sweden með hlutabréf í HS Orku séu að öllu leyti í samræmi við gildandi lög.  Með fyrirliggjandi áliti nefndar um erlenda fjárfestingu þá er lögbundinni aðkomu stjórnvalda að málinu endanlega lokið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Geysi Green Energy en eins og fram hefur komið seldi félagið Magma Energy hlut sinn í HS Orku.

Í tilkynningunni segir, að skipun forsætisráðherra á nefnd sem framkvæma eigi óháða og sjálfstæða rannsókn á kaupum Magma Energy Sweden AB á hlutbréfum í HS Orku hafi takmarkaða þýðingu þar sem viðskiptunum sé lokið og umrædd nefnd starfi ekki í krafti neinna laga.

„Þar sem  umrædd nefnd er í raun umboðslaus hefur Geysir Green Energy ekki séð sér annað fært en að hafna því að veita upplýsingar varðandi umrædd viðskipti sem nefndinni er ætlað að rannsaka.  Jafnframt hefur félagið bent á það að nefnd um erlendar fjárfestingar fékk frá félaginu öll gögn um viðskipti þess við Magma Energy Sweden og að viðskiptaráðuneytinu sé óheimilt að veita öðrum aðilum aðgang að þeim," segir í tilkynningu Geysis Green.

Félagið segist hafa óskað eftir því við umboðsmann Alþingis að hann kanni og fari yfir stjórnsýslulega meðferð málsins sem og lagalegar heimildir að baki störfum rannsóknarnefndarinnar enda ljóst að niðurstaða nefndarinnar geti ekki haft nokkur áhrif á viðskipti milli einkaaðila og framkvæmdavaldið geti ekki aðhafst með lögmætum hætti gagnvart þeim einkaaðilum sem um ræði á grundvelli niðurstaðna nefndarinnar.

Þá hefur félagið sent viðskiptaráherra bréf þar sem þessum vinnubrögðum er mótmælt og áskilur sér allan rétt til bóta verði það fyrir tjóni af völdum aðgerða ríkisvaldsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert