Fréttaskýring: Vopn sem nýta skal í Icesave-baráttunni

Frá umræðum á Alþingi um Icesave-samningana.
Frá umræðum á Alþingi um Icesave-samningana. mbl.is/Heiðar

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að það hafi aldrei nokkur maður haldið því fram að ríkið beri ábyrgð á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta.

Í fyrradag var viðskiptanefnd kynnt minnisblað Áslaugar Árnadóttur lögfræðings, sem er fyrrverandi stjórnarformaður sjóðsins, þar sem m.a. kemur fram að ríkið beri enga ábyrgð á sjóðnum samkvæmt íslenskum lögum.

Steingrímur segir Icesave-deiluna aldrei hafa snúist um þetta lagalega álitamál. „Þetta mál hefur aldrei snúist um það og aldrei verið rekið á þeim forsendum. Ég lít þó auðvitað á þetta eins og öll önnur gögn. Sú meginniðurstaða hefur þó lengið legið fyrir,“ segir Steingrímur sem kveður álitið breyta litlu í Icesave-málinu.

Lilja Mósesdóttir sagði í Morgunblaðinu í gær að túlka mætti álitið á þann hátt að andstæðingar Icesave-samningsins, sem gerður var á síðasta ári, hefðu haft rétt fyrir sér.

„Ég myndi nú ekki treysta mér til að setja mig í það dómarasæti að einhverjir tilteknir hafi haft rétt fyrir sér og aðrir rangt fyrir sér í flóknu máli af þessu tagi. Þannig orðalag mundi ég nú aldrei nota. Menn hafa mismunandi sjónarmið og leggja mismunandi mat á þessa hluti og færa einhver rök fyrir því eins og gengur en það er nú nálgun í þessu máli sem ég kann illa við að sýna fram á að eitt sjónarmið sé rétt og annað rangt. Við skulum spyrja að leikslokum,“ segir Steingrímur.

Ekkert lagalegt gildi

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, kveður nefndina alltaf hafa haldið því fram að ríkið beri enga ábyrgð á sjóðnum og segir nefndina hafa mörg lögfræðiálit þess efnis undir höndum. „Það er alveg klárt að það er engin lagaleg skylda að tryggja innstæður en það eru fullyrðingar stjórnvalda að þau muni gera það með líkum hætti og Geir H. Haarde gaf á sínum tíma. Svo geta menn deilt um hið lagalega gildi slíkra yfirlýsinga,“ segir Guðbjartur en í minnisblaðinu kemur afdráttarlaust fram að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar hefur ekkert lagalegt gildi og er þannig einungis yfirlýsing um vilja hennar.

„Þessi fullyrðing hefur vakað yfir allan tímann en þjóðin hefur trúað þessu og fékk innstæðurnar greiddar, þ.e.a.s. allir sem áttu innstæður í íslensku bönkunum á Íslandi fengu innstæðurnar greiddar. Eini hópurinn sem skilinn var eftir eru þeir sem voru ekki í útibúum í Neskaupstað heldur í útibúum í London og Hollandi. Við skulum þannig nýta okkur öll þau vopn sem okkur berast í því að berjast gegn því að greiða Icesave en það er ljóst að við þurfum einhvern tímann að ljúka þessu máli.“

Minnisblaðið
» Viðskiptanefnd var kynnt minnisblað þess efnis að ríkið bæri enga ábyrgð á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta.
» Fjármálaráðherra segir niðurstöðu minnisblaðsins engar fréttir.
» Formaður fjárlaganefndar segir að nýta megi minnisblaðið sem vopn í baráttunni gegn greiðslu á Icesave.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert