Móbergshellur sem Árni Johnsen þingmaður sagðist hafa tekið í góðri trú hafa verið færðar til baka á hans kostnað. Fréttir af grjótnáminu fóru í fjölmiðla og í viðtali við dv.is fyrir viku síðan sagðist Árni hafa tekið grjótið í góðri trú. Árni sótti hellurnar úr barðinu ofan við Höfðavík við Stórhöfða og færði heim að heimili sínu, Höfðabóli. Samkvæmt Eyjafréttum voru stórtækar vinnuvélar að störfum við heimili Árna í morgun til að koma hellunum aftur á sinn stað.
Í Eyjafréttum er haft eftir Ólafi Þ. Snorrasyni, framkvæmdastjóra Umhverfis- og framkvæmdasviðs að grjótnámið hefði ekki verið samkvæmt reglum Vestmannaeyjabæjar. „Ekki var farið eftir settum reglum varðandi grjótnámið en viðkomandi aðila var sent bréf þar sem honum var tilkynnt um það og gefinn frestur á að skila móbergshellunum á sinn stað. Nú er sá tími liðinn en Vestmannaeyjabær áskildi sér rétt til þess að láta fjarlægja hellurnar að kostnaði viðkomandi aðila.“
Þegar Eyjafréttir spurðu hvort Árni mætti eiga von á sekt frá Vestmannaeyjabæ sagði Ólafur. „Ég á síður von á því. Það verður reynt að klára málið á milli þeirra aðila sem að því komu. Það er venjan í svona málum.“