Búið að malbika Bolungarvíkurgöng

Malbikað í Bolungarvíkurgöngum.
Malbikað í Bolungarvíkurgöngum. mynd/bb.is

Lokið var við malbikun Bolungarvíkurganga í dag en malbikunin stóð yfir í tíu daga. Mikill hiti myndaðist í göngunum á meðan malbikuninni stóð.

„Malbikið er um 150 gráður þegar það er lagt niður og var því örugglega upp í 40-50 gráðu hiti alveg við malbikið. Mennirnir lögðu það út á stuttermabolunum,“ segir Einar Hrafn Hjálmarsson, aðstoðarverkefnastjóri hjá Ósafli, við vefinn bb.is.

Nú tekur við almennur frágangur og smáverk en göngin verða opnuð í lok næsta mánaðar. „Við eigum eftir að setja upp örlítið af rafmagnsbúnaði. Eftir eru prófanir á öllum öryggiskerfum, að þrífa göngin og laga til brunna,“ segir Einar. Áætlað var 12-13 þúsund tonn af malbiki hafi farið í Bolungarvíkurgöng.

Bolungarvíkurgöng eru 5,1 kílómetri að lengd og 8,7 metra breið. Áætlaður kostnaður við gerð þeirra er um fimm milljarðar króna. Þau eru byggð eftir norskum jarðgangastaðli og er miðast við þúsund bíla umferð á sólarhring eftir nokkur ár en göngin leysa af hólmi þjóðveginn um Óshlíð sem lengi hefur þótt hættulegur vegna hættu á ofanfalli og öðrum þáttum. Í gær voru 60 ár liðin frá vígslu Óshlíðarvegarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert