Nýr formaður Ungra vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu

Claudia Overesch, formaður UVGh
Claudia Overesch, formaður UVGh

Aðalfundur Ungra vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu var haldinn í gærkvöldi og samþykkti fundurinn ályktun um að skora á borgarstjórn að bregðast við vændisvanda í borginni og ítrekaði beiðnir um að borgarstjórn leysi vanda útigangskvenna á höfuðborgarsvæðinu og útvegi Félagi múslima lóð undir mosku.

Á fundinum var einnig ný stjórn kosin og er nýr formaður UVGh Claudia Overesch.

Í ályktun fundarins um vændisvanda í Reykjavík segir að UVGh telji brýnt að borgaryfirvöld taki þátt í baráttunni gegn vændi af fullum krafti.

„Borgaryfirvöld þurfa að horfast í augu við það að ungar konur og karlar leiðast oft út í vændi til að fjármagna eiturlyfjaneyslu og sefa fíkn.  Það er ekki hægt að líta fram hjá því að vændi og mansal eru nátengd fyrirbæri. Mikilvægt er að borgaryfirvöld gefi það skýrt til kynna að vændi á ekki að vera valkostur og er ekki viðurkennd atvinnugrein.“

Þá ítreka Ung vinstri græn á höfuðborgarsvæðinu ályktun fyrri stjórnar um sértækan vanda útigangskvenna og nauðsyn þess að borgaryfirvöld tryggi þeim mannsæmandi húsnæði.

„Þess má geta að á meðan konum hefur ekki verið boðið viðunandi langtímaathvarf er búið að sjá heimilislausum körlum fyrir fleiru en einu slíku.“

Einnig skora UVGh á borgarstjórn að koma til móts við óskir Félags múslima um lóð undir mosku og minna fulltrúa í nýkjörnu skipulagsráði Reykjavíkurborgar á að „samkvæmt stjórnarskrá Íslands ríkir trúfrelsi á Íslandi og 65. grein hennar tekur skýrt fram að bannað sé að mismuna fólki eftir trú þess. Að þeim forsendum gefnum er algjörlega ólíðandi að múslimum hafi verið neitað um bænahús í Reykjavík.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert