Rúmar 100 milljónir í upplýsingamiðlun um ESB

Fánar ESB blakta fyrir utan höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar sambandsins í Brussel.
Fánar ESB blakta fyrir utan höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar sambandsins í Brussel. THIERRY ROGE

Á fundi utanríkismálanefndar Alþingis sem fram fór í gær var minnisblaði dreift þar sem fjallað var um aðkomu Evrópusambandsins (ESB) að því ferli sem framundan er vegna umsóknar Íslands um inngöngu í sambandið.

Í minnisblaðinu, sem Mbl.is hefur undir höndum, er fjallað um svokallaða IPA-áætlun sem felur í sér ýmis konar „stuðningsaðgerðir“ við ríki sem sótt hafa um inngöngu í Evrópusambandið eða lýst áhuga á slíkri inngöngu. Fram kemur að á yfirstandandi sjö ára tímabili, 2007-2013, hafi áætlunin yfir að ráða um 11,5 milljörðum evra eða sem samsvarar tæplega 1.800 milljörðum króna.

Þar af eru um 28 milljónir evra (um fjórir milljarðar króna) eyrnamerktir til beinna verkefna á Íslandi á tímabilinu 2011-2013. Eins og áður hefur komið fram er gert ráð fyrir að koma þurfi mótframlag frá Íslandi upp á einn milljarð króna. Hægt er að sækja um styrki til einstakra verkefna tengdum IPA-áætluninni og eru samkvæmt minnisblaðinu þegar farnar að berast slíkar umsóknir. Fram kemur að í ákveðnum tilfellum sé gert ráð fyrir 10-15% mótframlagi styrkþega en í öðrum sé það umsóknarríkisins að ákveða hvort farið sé fram á slíkt.

Fimm áherslusvið

Samkvæmt minnisblaðinu hefur Evrópusambandið skilgreint fimm áherslusvið eða tegundir verkefna við ráðstöfun á þessum fjármunum. Í fyrsta lagi „aðlögunaraðstoð og stofnanauppbyggingu“ og „samstarf yfir landamæri“ sem „miðstýrt verður frá Brussel.“

Í annan stað byggða-, mannauðs- og dreifbýlisþróun og undirbúningur fyrir þátttöku umsóknarríkis í stefnum Evrópusambandsins á þeim sviðum og aðkomu að sjóðum þeim tengdum. Þessum þáttum er stýrt í hverju landi fyrir sig „af stofnunum sem settar eru upp sérstaklega í því skyni“ að því er segir í minnisblaðinu.

Í tilfelli Íslands er einkum áhersla á tvö markmið. Annars vegar að styrkja stjórnsýsluna til þess að „geta tekist á við þær breytingar sem innleiðing ESB löggjafarinnar (acquis communautaire) hefur í för með sér“ og hins vegar að undirbúa væntanlega þátttöku í sjóðum og samstarfsáætlunum sem Ísland tekur ekki þegar þátt í á grundvelli EES-samningsins.

Er gert ráð fyrir að meirihluti þeirra beinu styrkja sem veittir verði til Íslands, eða um 60-70%, fari í að „styrkja stjórnsýsluna í að takast á við þau verkefni sem aðild að ESB felur í sér“, eins og segir í minnisblaðinu.

Upplýsingaskrifstofa ESB

Þá mun hyggst ESB samkvæmt minnisblaðinu „styðja við miðlun upplýsinga til hagsmunaaðila og almennings um Evrópusambandið og hvað felst í aðild að því.“ Mun sambandið verja 700 þúsund evrum (rúmum 106 milljónum króna) til þess verkefnis, þ.á.m. í rekstur „upplýsingaskrifstofu ESB“ á Íslandi 2010-2011.

Gert er ráð fyrir að starfsemi miðstöðvarinnar verði boðinn út og að hún geti tekið til starfa um næstu áramót.

Þá er tekið fram að stuðningur Evrópusambandsins við umsóknarríki sé ekki skilyrtur við það að af aðild að sambandinu verði og ekki sé gerð krafa um endurgreiðslur á styrkjum eða kostnaðar umfram það sem felst í „mótframlagi einstakra verkefna.“

Að lokum segir í minnisblaðinu að Kristjáni Andra Stefánssyni, sendiherra, hafi verið fengið það verkefni að hafa yfirumsjón með starfsemi IPA-áætluninni hér á landi af hálfu Íslands eins og gert er ráð fyrir í henni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert