Tekur pólitískri gagnrýni of persónulega

Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir

Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og forseta borgarstjórnar, þykir færsla Jóns Gnarr borgarstjóra, á síðunni Dagbók borgarstjóra, bera þess merki að borgarstjóri taki pólitískum umræðum of persónulega.

„Það eina sem ég get sagt er að það er partur af lýðræðinu og partur af allri samvinnu að skiptast á skoðunum. Og við höfum auðvitað ekki verið sammála um allt en borgarstjóri má ekki taka þeirri pólitísku umræðu of persónulega.“

Hanna Birna segir umræðuna snúast um hag borgarbúa og Sjálfstæðismönnum þyki að honum hafi verið vegið að undanförnu.

„Það er ekkert launungarmál að við Sjálfstæðismenn höfum gagnrýnt núverandi meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar fyrir að nýta sumarið ekki nægilega vel til að finna góðar leiðir til hagræðingar í borgarkerfinu.“

„Við höfum mjög markvisst hafnað þeirri leið að hækka gjaldskrár og skatta á íbúa eins og nú virðist stefna í, því miður. Það getur vel verið að borgarstjóri sé að vísa til þess og að hann upplifi þessa hörðu afstöðu okkar gegn skattahækkunum sem „hroka“ eða „töffaragang“ en það er ekkert annað en hlutverk okkar. Okkur finnst bara ekkert broslegt við hærri álögur á íbúa.“

Þá ítrekar Hanna Birna að Sjálfstæðismenn séu ekki í meirihlutasamstarfi með Besta flokknum en minna hafi farið fyrir samvinnu á vettvangi borgarstjórnar undanfarið en áður hafi verið. 

„Meirihlutinn hefur sagt að það sé vegna sumarleyfa og menn séu að finna sinn stað svo við höfum sýnt því skilning.“

Henni þykir þó kveða við annan tón hjá borgarstjóra sem hafi einungis fyrir nokkrum dögum talað um að honum þætti miður að meirihlutinn hafi ekki staðið sig nógu vel í samvinnunni.

Fyrst og fremst snúist vinnan í borgarstjórn um málefni borgarbúa en ekki persónur. „Lýðræðið kallar á það að menn skiptist á skoðunum og fyrir því mega menn ekki vera of viðkvæmir.“

Sýni auðmýkt en fæ töffaragang á móti

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka