Efnahagsleg árás af hálfu Breta

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, lýsti þeirri skoðun á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í gær, að  Íslendingar hefðu, einir þjóða, í reynd orðið fyrir efnahagslegri árás af hálfu annars NATO-ríkis þegar Bretar virkjuðu hryðjuverkalögin gegn Íslendingum.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu sagði Össur á fundinum, að það væri óskiljanlegt og óverjandi að eitt aðildarríki  Atlantshafsbandalagsins gripi til slíkra aðgerða gegn öðru; það væri í algeru ósamræmi við grunnhugsun bandalagsins um samstöðu. Með því hefðu Bretar vegið að grundvallarhagsmunum Íslendinga og komið í veg fyrir að nokkur von yrði til þess að unnt yrði að bjarga því sem bjargað varð í íslenska bankakerfinu.

Össur  lagði sérstaka áherslu á að útvíkkun öryggishugtaks NATO næði einnig til efnahagsleg öryggis. Með því yrði tryggt að efnahagsleg árás á borð við þessa gerðist aldrei aftur.

Að sögn utanríkisráðuneytisins sagði  Aivis Ronis, utanríkisráðherra Lettlands, að málið væri þess eðlis að rétt hefði verið hjá Íslendingum að taka það upp á vettvangi NATO, eins og gert var á sínum tíma.  

Fundurinn var haldinn í Riga í Lettlandi. Þar ákváðu ráðherrarnir að styrkja samstarf ríkjanna átta enn frekar á grundvelli tillagna sem unnin var fyrir þá af Søren Gade fyrrverandi varnarmálaráðherra Dana, og Valdis Birkavs, fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra Letta.

Skýrslan, sem kynnt var á fundinum, felur í sér 38 tillögur um leiðir til aukins samstarfs Eystrasaltsríkjanna og Norðurlandanna. Tillögurnar lúta að pólitískum samskiptum, nánara samstarfi milli utanríkisþjónusta og hjá alþjóðastofnunum, og samvinnu í umhverfis- og orkumálum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka