Glaumur og gleði í Hofi

Kristján Ingimarsson leikari sýndi á táknrænan hátt, með aðstoð gesta, …
Kristján Ingimarsson leikari sýndi á táknrænan hátt, með aðstoð gesta, að allt er hægt ef samtakámátturinn er nægur! mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Menningarhúsið Hof á Akureyri var formlega tekið í notkun við hátíðlega athöfn síðdegis. Forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og Dorritt Moussaieff, voru á meðal 500 boðsgesta sem fylltu Hamraborgina, stóra tónleikasal þessa glæsilega húss. 

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands lék í upphafi samkomunnar verkið Hymnos op. 45 eftir Hafliða Hallgrímsson. Hafliði, sem er Akureyringur en hefur verið búsettur í Skotlandi í áratugi, samdi verkið sérstaklega í tilefni opnunar Hofs, að beiðni hljómsveitarinnar.

Annar Akureyringur, Kristján Jóhannsson, söng Hamraborg Sigvalda Kaldalóns og Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi við undirleik Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og sönghópurinn Hymnodia, undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar, söng Bogoroditse Devo eftir Rachmaninov.

Þá tók Lay Low lagið ásamt norðlenskum tónlistarmönnum og ávörp fluttu Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Ingi Björnsson formaður byggingarnefndar hússins, Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri og Karl Frímannsson formaður stjórnar menningarfélagsins Hofs.

Loks sýndu leikarar úr Leikfélagi Akureyrar bút úr söngleiknum Rocky Horror sem frumsýndur verður í Hofi snemma í september.

Kynnar á samkomunni voru leikarafeðginin Þráinn Karlsson og Hildigunnur Þráinsdóttir. Móttökustjórn var í höndum Kristjáns Ingimarsssonar leikara - sem titlaður var gæðastjóri, og fór hann á kostum við athöfnina. Kitlaði hláturtaugar viðstaddra hvað eftir annað og endaði á því að sýna hve samtakamáttur fólks er mikill ef allir standa saman; bar stóran fleka aftast í neðri hæð salarins, þar sem áhorfendur tóku við honum, Kristján sté upp á flekann og áhorfendur fleyttu honum til baka niður á sviðið.

Kristján Jóhannsson syngur Hamraborg Kaldalóns og Davíðs Stefánssonar við undirleik …
Kristján Jóhannsson syngur Hamraborg Kaldalóns og Davíðs Stefánssonar við undirleik Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. mbl.is/Skapti
Hafliði Hallgrímsson og Guðmundur Óli Gunnarsson, stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, eftir …
Hafliði Hallgrímsson og Guðmundur Óli Gunnarsson, stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, eftir að sveitin frumflutti verkið Hymnos eftir Hafliða. mbl.is/Skapti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert