Sandgerðisdagar standa nú yfir og í fyrrakvöld fór fram Lodduganga sem er skemmti- og fræðsluganga fyrir fullorðna.
Heimsótt voru fyrirtæki og stofnanir og sagðar sögur, boðið var upp á léttar veitingar og fræðst. Spilað var á gítar á völdum stöðum þar sem allir sungu, hver með sínu nefi. Komið var við á hafnarvigtinni og hópurinn, líklega hátt í 400 manns, var vigtaður. Hann reyndist vera um 28,9 tonn.