Þingmenn máluðu húsið

Verkinu lokið. Í aftari röð f.v.: Ólína Þorvarðardóttir, Magnea Matthíasdóttir, …
Verkinu lokið. Í aftari röð f.v.: Ólína Þorvarðardóttir, Magnea Matthíasdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson. Í fremri röð f.v.: Dibo 8 ára, Henning 12 ára, Otto 14 ára, Vittus Napparngummut, Peter 16 ára, Árni Johnsen og Ásmundur Einar Daðason. mbl.is/Þórður Þórarinsson

Íslenskir alþingismenn máluðu hús einstæðs grænlensks föður fjögurra barna þegar þeir höfðu lokið störfum á ársfundi Vestnorræna ráðsins i bænum Tasilaq (Ammasaliq) á Austur-Grænlandi á fimmudaginn var. Fjölskyldufaðirinn „brosti með jarðarkringlunni“ af þakklæti.

Ársfundinum var lokið á fimmtudaginn var en ekkert flug fékkst heim  fyrr en daginn eftir. Þingmennirnir fengu því óvæntan frídag. „Húsin í bænum voru í misjöfnu ástandi. Mér datt í hug að það væri gaman að leggja lið og mála eitt þeirra,“ sagði Árni Johnsen, alþingismaður sem var á fundinum. 

Hann fékk grænlenska þingmanninn Justus Hansen til að aka með sig um bæinn. „Þar var eitt hús áberandi snjáð. Í því býr fimm manna fjölskylda, fjögur börn 8-16 ára og faðir þeirra. Húsmóðirin stakk af fyrir nokkrum árum með öðrum manni,“ sagði Árni. 

Húsbóndinn heitir Vittus Napparngummut og er veiðimaður að atvinnu. Auk þess sér hann um heimilishaldið og annast um börnin. Hann fylgir dóttur sinni í skólann og sækir hana, þvær þvotta, eldar mat og annað sem til þarf. Vittus er reglumaður og sístarfandi.

„Hann er með bátkænu en utanborðsmótorinn hans, 40 hestafla, er ónýtur. Hann fær því lánaðan bát hjá vini sínum til að veiða í matinn,“ sagði Árni. „Hann borgar leigu með fiski og fær afganginn af aflanum fyrir sig.“

„Ég þarf að finna handa honum 40 hestafla mótor einhvers staðar, það liggja margir með ónotaða mótora,“ sagði Árni. Þeir spurðu Vittus hvort þeir mættu mála húsið hans og hann varð himinlifandi. „Hann sagðist hann lengi hafa langað að mála það, en ekki haft efni á því - auk þess sem utanborðsmótorinn væri ónýtur. Hann brosti með jarðarkringlunni við þetta boð,“ sagði Árni.

Þau sem fóru í málningarvinnuna voru auk Árna alþingismennirnir Ásmundur Einar Daðason, Ólína Þorvarðardóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Magnea Matthíasdóttir ritari nefndarinnar og Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins.

„Við keyptum málningu á húsið og allt sem til þurfti og lukum við að mála húsið á einum degi,“ sagði Árni. „Um leið löguðum við til á lóðinni!“

Sökkull hússins var málaður svartur, húsið rautt og gluggar hvítir. Húsið skipti alveg um svip vegna framtaks íslensku þingmannanna og starfsmanna ráðsins.

Meðan þingmennirnir máluðu húsið gekk Vittus með óhreint tau niður í þvottahús sem er við höfnina og setti þar í þvottavél. Leiðin liggur um mjög bratta brekku. Hann skaust á sjó og veiddi vænan skerjalax sem hann vildi endilega gefa þingmönnunum að launum. Þeir báðu hann að gefa fjölskyldu sinni laxinn en þáðu þakklæti þeirra allra að launum.


Húsið var áberandi snjáð. Sigmundur Ernir og Ásmundur Einar byrjaðir …
Húsið var áberandi snjáð. Sigmundur Ernir og Ásmundur Einar byrjaðir að mála. mbl.is/Þórður Þórarinsson
Húsið gjörbreytti um svip við að vera málað. Ásmundur Einar …
Húsið gjörbreytti um svip við að vera málað. Ásmundur Einar í stiganum sem Árni styður við og Sigmundur Ernir og Ólína fylgjast með. mbl.is/Þórður Þórarinsson
Þegar málningarvinnunni var lokið var tekið til á lóðinni og …
Þegar málningarvinnunni var lokið var tekið til á lóðinni og allt var hreint og snyrtilegt eftir að þingmennirnir tóku til hendinni. mbl.is/Þórður Þórarinsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert