„Ríkisstjórnin hefur lítið gert til að liðka fyrir um þær stóru fjárfestingar sem voru á döfinni í atvinnulífinu. Það skiptir ekki máli hvort það er Magma-málið, framkvæmdir á Suðurnesjum eða skipulagsmál; það er allt í stöðugu uppnámi og ávallt fundinn einhver flötur til að tefja eða seinka framkvæmdum.“
Þannig mælir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í samtali við Morgunblaðið í dag. Hann segir það sé engu líkara en ráðherra beiti sér stöðugt gegn öllum áformum og endalausar seinkunaraðgerðir séu til þess eins að þvælast fyrir og koma í veg fyrir að af þessum verkefnum geti orðið.
Gylfi er nú á ferð um landið í þeim tilgangi að funda með stjórnum allra 53 aðildarfélaga ASÍ. Hann segir hljóðið í mönnum þungt og fólki finnist illa komið til móts við hagsmuni sína og þá sérstaklega í tengslum við atvinnumál.