Vill rannsókn á vinnubrögðum sérstaks saksóknara

Sigurður Einarsson.
Sigurður Einarsson. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, segist í viðtali við Fréttablaðið vonast til þess að fram fari opinber rannsókn á vinnulagi  sérstaks saksóknara.  

Sigurður segir, að gæsluvarðhaldsúrskurðir í maí yfir Hreiðari Má Sigurðssyni og fleiri fyrrum yfirmönnum Kaupþings hafi ekkert haft með hagsmuni rannsóknar saksóknara að gera.

„Embætti saksóknara hafði verið með ýmsar yfirlýsingar um að brátt færi að líða að þessu og hinu, ákærum og svo framvegis. Ég held að það hafi verið kominn töluverður þrýstingur á að eitthvað gerðist. Þá var gripið til þess ráðs að þjarma hraustlega að okkur Kaupþingsmönnum og sumir jafnvel hnepptir í varðhald. Mér er kunnugt um að fyrrverandi forstjóri bankans, Hreiðar Már Sigurðsson, var hnepptur í tólf daga einangrun en ekkert talað við hann fyrr en á síðasta degi varðhaldsins. Maður spyr: Er það eðlilegt? Þá mundu þeir auðvitað segja: Við þurftum að tala við ýmsa aðra. En mér er kunnugt um það hverja aðra var talað við og það er ekkert þar sem réttlætir tólf daga gæsluvarðhald. Ekkert," segir Sigurður.

Segir Sigurður að hann hafi, með því að neita lengi vel að mæta í yfirheyrslu á Íslandi, ekki ætlað að tefja rannsóknina heldur verið að mótmæla óskiljanlegum yfirgangi og valdníðslu.  

Sjálfur segist hann telja að hann hafi gefið fullnægjandi skýringar á öllu því, sem honum er gefið að sök. Þá segir hann það ofvaxið sínum skilningi, að Icesave-málið skuli ekki hafa verið fyrsta málið, sem rannsakað var sem sakamál eftir hrun.

Sigurður segist hafa reynt að skapa sér nýja tilveru eftir bankahrunið og það hafi gengið býsna vel áður en saksóknarinn ákvað að setja hann á lista alþjóðalögreglunnar. Sú ákvörðun hafi reynst mjög afdrifarík fyrir sig og sína fjölskyldu.

Þegar Sigurður er í viðtalinu spurður hvort hann telji sig skulda íslenskum almenningi afsökunarbeiði segist hann telja að það sé annarra að biðjast afsökunar á skellinum sem lífskjör almennings hlutu í hruninu.

„Það sem ég er að reyna að segja er að ég ber mína ábyrgð en ekki gagnvart þjóðinni og ég tel að það sé þeirra sem til hennar sóttu umboð að standa henni reikningsskil gjörða sinna. Í þeim efnum er ég auðvitað að tala um stjórnmálamenn og embættismenn í stjórnsýslunni," segir Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka